Íþróttafélag Reykjavíkur

Hafþór Harðarson & Linda Hrönn Magnúsdóttir Keilarar ársins hjá ÍR

Í dag fór fram verðlaunahátíð ÍR, þar sem Íþróttamaður og Íþróttakona ársins eru valin.
Veitt eru Gull-  & Silfurmerki ÍR, HM merki ÍR og eins hlaut Adam Pawel Kristalspinna fyrir sinn fyrsta 300 leik.

Keilarar ársins 2022
Stjórn keiludeildar ÍR ákvað á stjórnarfundi þann 3. nóvember 2022 að tilefna eftirfarandi sem
íþróttakarl og íþróttakonu keiludeildar ÍR 2022

Hafþór Harðarson:

 

Hafþór hefur um árabil verið einn fremsti keilari landsins.
Hann varð á árinu Íslandsmeistari einstaklinga í keilu í sjötta sinn, Reykjavíkurmeistari einstaklinga í fimmta sinn ásamt því sem hann hafnaði í öðru sæti á Reykjavíkurleikunum.
Þá er hann Íslands-, deilda- og bikarmeistari með liði sínu ÍR-PLS.
Hafþór varð einnig í þriðja sæti á Íslandsmeistaramóti para og í þriðja sæti á Íslandsmeistaramóti í tvímenningi.

 

 


Linda Hrönn Magnúsdóttir

 

Linda varð Íslandsmeistari einstaklinga á árinu í fyrsta sinn.
Hún varð einnig Íslandsmeistari para. Þá varð hún ásamt liði sínu ÍR-TT í öðru sæti í deildarkeppni 1. deildar og í öðru sæti á Íslandsmeistaramóti og bikarkeppni liða.
Linda varð einnig í þriðja sæti í sínum flokki á Evrópumóti öldunga (ESBC).

 

 

 

 

HM-merki – Nanna Hólm Davíðsdóttir

 

Nanna Hólm er einn fremsti keilari landsins.
Hún varð Íslandsmeistari einstaklinga árið 2019 og hefur undanfarin ár verið í baráttu um efstu sæti bæði í einstaklings- og liðakeppnum.
Nanna er í landsliði Íslands og tók þátt á Heimsmeistaramótinu í keilu árið 2021 með góðum árangri.

 

 

 

 

Silfurmerki ÍR – Þórhallur Hálfdánarson

Þórhallur, eða bara Tolli eins og hann er alla jafna kallaður, hefur verið félagsmaður ÍR frá stofnun deildarinnar 1994 með smá hléi í tæp 2 ár. Hann er einn af þeim sjálfboðaliðum sem starfar hvað mest á bak við tjöldin og fer því ekki mikið fyrir honum í starfi félagsins.
Í raun vita því fáir af verkum hans sem hann hefur gert fyrir deild og íþrótt.
Það er því mikilvægt að félagið viðurkenni hans störf með veitingu Silfurmerkis ÍR. Tolli hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hönd deildarinnar og keiluna á landinu almennt og er enn að. Meðal annars hefur hann verið formaður Keilusambands Íslands en það stóra verkefni tók hann að sér á erfiðum tíma keilunnar þegar illa gekk að fá fólk til starfa og má segja að hann hafi bjargað málum á þeim tíma. Tolli hefur verið liðsmaður með liði ÍR-KLS sem er eitt sigursælasta lið Íslandssögunnar í keilu, margfaldir Íslands- og bikarmeistarar liða.

 

Gullmerki ÍR – Guðmundur Jóhann Kristófersson (Gandi)

Gandi var sæmdur Silfurmerki ÍR 2016. Hann kom til liðs við félagið árið 2010 og tók þegar þátt í starfi deildarinnar við þjálfun ungmenna, stjórnar- og nefndarsetu fyrir hönd deildarinnar auk fleiri verka. Allt frá upphafi veru sinnar innan ÍR hefur Gandi haldið ótrauður áfram að gefa af sér til ÍR-inga.

Saga keilunnar á Íslandi er samofin verkum Ganda. Hann sat í fyrstu stjórn Keilusambandsins sem var stofnuð árið 1994 og var þar varaformaður fyrstu 4 árin. Hann hefur alla tíð síðan þá tekið þátt í félagsstarfi og sinnt ábyrgðarstöðum auk þess að hafa þjálfað nánast hvern einasta ungling sem hefur æft keilu og höfum við hjá ÍR notið góðs af því alla tíð frá árinu 2010.

Gandi, sem er (ögn) eldri en mörg okkar hér, er enn að gefa af sér til keilunnar. Hann er enn í þjálfarahópi okkar ÍR-inga og miðlar þar af sinni reynslu. Hann skorast aldrei undan ef leitað er aðstoðar við hin ýmsu verk. Hann er því sannarleg fyrirmynd okkar sem veitir innblástur og gott er að eiga að.

 

Kristalspinni keiludeildar ÍR – Adam Pawel Blaszczak

 

Adam  fékk viðurkenningu fyrir sinn fyrsta 300 leik.
Það hefur verið gert undanfarin ár að verðlauna keilara innan ÍR með Kristalspinna. Náði Adam þessum merka áfanga í úrslitum á RIG 3.febrúar 2022 og það í beinni útsendingu á RÚV

 

 

 

X