Íþróttafélag Reykjavíkur mun ávallt leitast við að koma í veg fyrir að iðkendur og aðrir félagsmenn verði fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á vegum félagsins. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi á aldrei að eiga sér stað í íþróttum og allir hafa skyldum að gegna og verða að bregðast við ef grunur um misnotkun vaknar.

Hér má nálgast nánari verkferla og leiðbeiningar frá ÍBR fyrir alla aðila ef grunur er um ofbeldi eða óæskilega hegðun innan félagsins. 

 

Hvað er kynferðisleg áreitni og ofbeldi?

Kynferðisleg áreitni er skilgreind samkvæmt lögum nr. 96/2000 sem óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu, hvort sem hún er líkamleg, orðbundin eða myndræn, og sem haldið er áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Líkamleg áreitni getur falist í snertingum sem ekki er óskað eftir. Orðbundin áreitni getur falist í óviðeigandi spurningum um kynferðisleg málefni, athugasemdir um líkama eða dónalegir brandarar. Birtingamynd getur einnig verið í gegnum samskiptamiðla, símleiðis eða í bréfi. Myndræn áreitni getur falist í því sem er gefið í skyn án beinna orða eða athafna líkt og kynferðislegar myndatökur, áhorf á persónulega staði eða sýna/senda kynferðislegt efni.

Kynferðislegt ofbeldi eru kynferðislegar athafnir gagnvart einstaklingi sem ekki hefur gefið eða er ófær um að veita samþykki sitt (ÍSÍ, e.d.).

Afleiðingar

Afleiðingar kynferðislegs áreitnis geta verið mjög alvarlegar fyrir þann sem verður fyrir því. Kynferðisleg áreitni getur m.a. haft eftirfarandi afleiðingar:

 • Líkamleg viðbrögð: svefnleysi, höfuðverkur, maga- og meltingartruflanir og vöðvaverkir.
 • Sálræn viðbrögð: kvíði, óróleiki, öryggisleysi, þunglyndi og skortur á sjálfstrausti. Einnig geta önnur einkenni verið einbeitingarvandi og skortur á trausti gagnvart öðrum.
 • Breytingar á hegðun: aðgerðarleysi, minni afköst og árangur, félagsfælni og tal um að hætta í íþróttum eða að viðkomandi hætti í íþróttum.

(Norwegian Olympic and Paralympic Committee and Confederation of Sport (NIF), e.d.; Vinnueftirlitið, 2008)

 

Hefur þú orðið fyrir kynferðislegu áreitni og/eða ofbeldi í íþróttastarfi?

 • Talaðu við einhvern sem þú treystir.
  • Að segja frá ofbeldinu/áreitninni er fyrsta skrefið til að stöðva það. Það er mikilvægt að láta vita svo viðkomandi fái ekki tækifæri til að halda slíkri hegðun áfram gagnvart þér eða öðrum.
  • Ábyrgðin er aldrei þín og ofbeldið er aldrei þér að kenna.
 • Hafðu samband við lögreglu, neyðarmóttöku og/eða Stígamót.
  • Símanúmer lögreglu er 112
  • Neyðarmóttaka vegna nauðgana: Veitir þolendum kynferðisofbeldis fyrstu hjálp, ráðgjöf og stuðning. Neyðarmóttakan er á Landspítalanum Fossvogi, sími: 543-2094.
  • Stígamót: eru opin öllum þeim sem orðnir eru 18 ára og orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og aðstandendur þeirra. Heimasíðan er www.stigamot.is og síminn er 562-6868 og 800-6868.
  • Þú getur leitað til aðila sem þú treystir og fengið þá til að koma með þér að tala við lögreglu/neyðarmóttöku.
 • Upplýstu félagið, annað hvort framkvæmdastjóra eða íþróttastjóra, um áreitnina.
  • Ef þú vilt ekki upplýsa félagið, þá getur þú leitað til Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR). Tengiliður er Jóna Hildur Bjarnadóttir, verkefnastjóri jafnréttismála, sími: 535-3702.

Hefur þú heyrt af eða orðið vitni af kynferðislegri áreitni/ofbeldi í íþróttastarfi?

 • Hjálpaðu einstaklingnum sem varð fyrir áreitninni. Mikilvægt að hlusta vel á það sem þolandi segir og ekki fara í það að yfirheyra. Sýndu einstaklingnum skilning og stuðning.
 • Hafðu samband við lögreglu, neyðarmóttöku, barnavernd og/eða Stígamót.
  • Öllum ber skylda til að tilkynna um grunsemdir um áreitni eða ofbeldi til að koma í veg fyrir frekari misnotkun.
 • Tilkynntu málið til félagsins.

Hvað mun félagið gera þegar upplýst er um kynferðislega áreitni/ofbeldi?

 • ÍR mun taka öllum tilkynningum alvarlega.
 • Ef þolandi er lögráða skal sterklega hvetja viðkomanda til að hafa samband við lögreglu í síma 112
 • Ef brotið hefur verið gegn ólögráða einstaklingi ber að tilkynna til Barnaverndar í síma 112 eða 411-1111.
 • Ef vafi er á hvað skal gera skal leitað ráða hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts/ lögreglu/Barnavernd
 • Félagið mun aldrei hindra neinn í að hafa samband við lögreglu eða ráðleggja neinum að hafa ekki samband við lögreglu.

Hvernig eru mál meðhöndluð innan félagsins?

 • Tilkynningar sem berast verða meðhöndlaðar af skrifstofu félagsins, þ.e. framkvæmdastjóra og/eða íþróttastjóra. Gætt verður fyllsta trúnaðar og þagmælsku við meðhöndlun tilkynninga innan félagsins.
  • Koma skal í veg fyrir hagsmunaárekstra við meðhöndlun mála. Aðilum er ekki leyfilegt að taka þátt í meðferð mála er varða þá persónulega eða aðila tengdum þeim.
 • Öllum málum verður fylgt eftir innan ÍR hvort sem yfirvöld eru með málið til meðferðar eða ekki.
  • Meðan mál er til meðferðar innan ÍR verður dregið úr hlutverki meints geranda innan félagsins.
  • Metið verður hvort kæra eigi mál til dómstóls ÍSÍ.
 • Ef mál er til rannsóknar hjá yfirvöldum mun félagið:
  • Vísa meintum geranda tímabundið úr starfi félagsins.
  • Í málum sem heyra undir lögregluyfirvöld er ávallt haft samráð við þau áður en upplýst er um málið innan félagsins.
 • Ef máli er vísað frá, það fellt niður eða það fór ekki í meðferð hjá yfirvöldum mun félagið:
  • Fara yfir málsatvik og meta hvort siðareglur ÍR hafi verið brotnar.
  • Meta hvort kæra eigi málið til dómstóls ÍSÍ.
 • Félagið mun ávallt leggja sig fram við að huga að þeim sem verða fyrir áreitni/ofbeldi og meðhöndla öll mál af fagmennsku. ÍR mun leggja sig fram um að aðstoða þolanda við að leita sér ráðgjafar og stuðnings.
 • Árlega mun Íþróttastjóri ÍR í samstarfi við aðalstjórn félagsins fara yfir verklag og meta hvort verklagsreglum ÍR hafi verið fylgt við meðhöndlun tilkynninga sem bárust á því ári. Jafnframt skal ákveðið hvernig fræðslu til þjálfara, starfsmanna og iðkenda verði háttað á

 

HÉR má sjá skjalið í heild

Síðast uppfært: 03.11.2020 klukkan 9:13

X