Saga Taekwondo deildar ÍR hófst árið 1990 þegar þeir Michael Jörgensen frá Danmörku (þá 3. dan) Kolbeinn Blandon og Ólafur W. Hand, stofnuðu Taekwondo félag Reykjavíkur. Í byrjun voru það nær eingöngu vinir og vandamenn í kringum stofnendurna sem æfðu en fljótlega spurðist þetta út og ásóknin jókst ört. Æfingarnar voru stundaðar í gamla ÍR-húsinu sem þá stóð við Túngötu (við Landakotstún, en í dag stendur húsið á Árbæjarsafni).

Það var fyrir tilstuðlan Guðmundar Þórarinssonar að félagið var tekið inn sem deild innan ÍR árið 1991. Þar með fengust húsaleigustyrkir frá ÍBR sem voru alger lífsnauðsyn fyrir félagið á þeim tíma. Í lok ársins 1993 hóf deildin svo að æfa í hinu nýja félagsheimili ÍR við Skógarsel og voru þau skipti mjög kærkomin þar sem aðstaða til æfinga er öll hin ákjósanlegasta í húsinu. Það var fyrst þá sem deildin tók að vaxa fyrir alvöru því tímafjöldinn jókst til muna auk þess sem margfalt fleiri gátu stundað æfingar í salnum hverju sinni. Þegar fjölmennast var lætur nærri að um 120 – 140 manns hafi stundað æfingar nokkuð reglulega.

Árið 1995 er merkilegt í sögu deildarinnar en það ár fóru þrír af félögum hennar, þau Ólafur Björn Björnsson, Sigrún Anna Davíðsdóttir og Sverrir Tryggvason, til Noregs að þreyta próf fyrir 1. dan, svart belti. Stóðust þau öll prófið með miklum sóma og voru þetta fyrstu svörtu belti félagsins og reyndar fyrstu svörtu beltin sem Michael Jörgensen hafði þjálfað alveg frá grunni. Á þessum tíma hafði Michael sjálfur æft Taekwondo í 18 ár, kominn með 4. dan og þar með orðinn meistari.

Talsverð umskipti áttu sér stað árið 1996 innan deildarinnar er meistari Michael Jörgensen, aðalþjálfari hennar frá upphafi, fluttist af landi brott til að gerast landsliðs- og ólympíuþjálfari Norðmanna. Það var mikið áfall fyrir deildina að missa mann með þá þekkingu, kunnáttu og reynslu í Taekwondo sem Michael hefur. Hann hafði þó byggt upp sterkan hóp sem hafði alla burði til að halda áfram þeirri uppbyggingu á Taekwondo sem Michael hafði lagt grunn að – innan ÍR sem og utan.

Ólafur Björn Björnsson var skipaður aðalþjálfari deildarinnar af meistara Michael og hefur hann sinnt því starfi af mikilli kostgæfni og fórnfýsi allar götur síðan. Hann nýtur hjálpar fleiri lengra kominna félagsmanna við þjálfun félagsins og á bak við hann starfar öflug stjórn. Einnig hefur alltaf verið lögð mikið áhersla á að fá meistara Michael og fleiri erlenda meistara til að heimsækja félagið reglulega og halda æfingabúðir.

Í dag hafa margir þjálfarar öðlast mikla reynslu og svört belti hjá félaginu eru orðin allnokkur. Hópurinn er samhentur og góður og stefnir ótrauður áfram að þeim markmiðum sem hann setur sér.

Taekwondo deild ÍR er aðildarfélag í TKÍ (Taekwondo-samband Íslands) og WTF (World Taekwondo Federation). Auk þess erum við aðildarfélag í TTU (Traditional Taekwondo Union) sem eru samtök innan WTF, stofnuð í Noregi af stórmeistara okkar, Cho Woon Sup, og hafa það að markmiði að halda í heiðri og varðveita hin gömlu og góðu gildi bardagalistarinnar nú þegar hún stendur andspænis nútímanum.

Texti: Jóel K. Jóelsson

Síðast uppfært: 13.11.2016 klukkan 22:05

X