Íþróttafélag Reykjavíkur

Spurt og svarað


Hvað er Taekwondo?
Taekwondo er kóresk bardagalist sem varð formlega til um miðja 20. öldina en byggir á þekkingu og hefðum sem hafa verið hundruð og jafnvel þúsundir ára að þróast. Taekwondo er ólympísk íþrótt sem er í stöðugum vexti um allan heim í dag. Taekwondo er skemmtilegt og gefandi áhugamál sem hjálpar þér að temja þér heilbrigðan lífsstíl.

Get ég byrjaði í Taekwondo?
Fjölmarga dreymir um að læra austurlenskar bardagalistir, komast í frábært form, læra að verja sig og efla líkamlega og andlega heilsu. Það sem hindrar marga í að láta drauminn rætast er óttinn við að taka fyrsta skrefið, að mæta á fyrstu æfinguna. Þessi ótti er þó með öllu óþarfur. Allir eru velkomnir á æfingar og engar kröfur eru gerðar til þeirra sem vilja byrja. Á byrjendanámskeiðum eru æfingar, eins og nafnið gefur til kynna, sniðnar að byrjendum. Farið er vel í allan grunn bardagalistarinnar og gott líkamlegt ástand er byggt upp jafnt og þétt. Enginn verður meistari á fyrstu æfingunni, það tekur alltaf tíma að verða fær í því sem maður tekur sér fyrir hendur. Feimni er óþarfi því allir sem eru að æfa hafa einhvern tímann verið byrjendur sjálfir og skilja að það tekur tíma að verða fær í bardagalistum.

Hvað græði ég á að byrja í Taekwondo?
Það er auðvitað mjög persónubundið hvað fólk fær út úr því að æfa Taekwondo. Við erum jafn ólík og við erum mörg og það eru því mismunandi forsendur sem við höfum fyrir að æfa Taekwondo.
En fyrir alla getur ávinningurinn af því að æfa Taekwondo verið:
– Sjálfsvarnartækni
– Sjálfsagi
– Sjálfsvirðing og virðing fyrir öðrum manneskjum
– Bætt heilsa og hreysti – jafn líkamlegt sem andlegt
– Liðleiki og snerpa
– Sjálfsöryggi og vellíðan
– Minni streita
– Að læra að þekkja þjálfan sig – þekkja eigin kosti og galla, takmörk og getu
– Góður og skemmtilegur félagsskapur
– Jákvætt lífsviðhorf
– Sterkur og góður persónuleiki
– Og margt fleira…

Hvað þarf ég að gera ef ég vil byrja að æfa?
Svarið er einfalt. Þú finnur til bol og íþróttabuxur og mætir á byrjendaæfingu í ÍR-heimilið, Skógarseli 12 (sjá æfingartöflu – efst á síðu), og prófar að taka þátt.

Hvað þarf maður að vera orðinn gamall til að byrja?
Börn geta byrjað að æfa hjá okkur 6 ára gömul. Í barnahóp eru börn á aldrinum 6-12 ára. 13 ára og eldri æfa með fullorðinsflokk.

Þarf maður að vera í sérstökum búningi og hvað kostar hann?
Þeir sem vilja prófa að æfa þurfa ekki að vera í sérstökum Taekwondo-búning. Mættu bara í íþróttabuxum og bol, prófaðu nokkrar æfingar og vittu hvort Taekwondo sé ekki eitthvað fyrir þig. Ef þú svo ákveður að halda áfram fjárfestir þú í búning (sem kallast dobok á kóresku). Taekwondo-búningar eru ódýrir miðað við það sem þekkist í öðrum bardagalistum. ÍR býður búninga til sölu (á meðan birgðir endast) á kr. 6500.

Ég hef heyrt að þjálfarinn tali útlensku á æfingum.
Í Taekwondo lærum við nöfnin á allri bardagatækni á kóresku. Auk þess gefur þjálfarinn einfaldar skipanir á kóresku á æfingum. En það er algjör óþarfi að óttast það. Á byrjendaæfingum er allt útskýrt  vel á íslensku og kóresku orðin síast smám saman inn. Ef þú skilur ekki eitthvað réttir þú bara upp hönd og spyrð kennarann. Auk þess eru þeir sem eru nýbyrjaðir alltaf aftast í röðunum svo að þeir geti sé hvað hinir eru að gera og fylgt eftir.

Fær maður einhver belti?
Já, í Taekwondo notum við mislit belti til að tákna það hversu langt viðkomandi er kominn í þjálfunarferlinu. Eftir að hafa æft í ákveðinn tíma taka nemendur próf og standist þeir það fá þeir nýtt belti. Þeir sem eru að byrja hafa hvít belti fram að sínu fyrsta prófi.

Og hvenær fær maður svarta beltið?
Það er mjög persónubundið hvenær fólk er tilbúið í það. Algengt er að það taki 5-6 ár en það gæti tekið enn lengir tíma, allt eftir því hvernig viðkomandi gengur og á hvaða hraða hann vill taka prófin.

Er ég ekki orðin(n) of gamall/gömul til að byrja að æfa?
Ef þig langar til að byrja að æfa, þá er svarið NEI! Það er aldrei of seint að byrja. Hjá Taekwondo deild ÍR hafa þó nokkrir aðilar byrjað að æfa á fimmtugsaldri og jafnvel er til dæmi um hörkuduglegan nemanda sem byrjaði á sextugsaldri. Þessir gömlu jaxlar gefa hinum yngri ekkert eftir. Allir verða að þekkja sín takmörk og fara rólega af stað. En með tímanum og góðri ástundun geta allir náð góðum árangri.

Hvað kostar að æfa?
Æfingargjöldin má finna með stundartöflunni. Þeir sem eru að prófa að æfa í fyrsta skipti geta verið með frítt á fyrstu æfingunum og séð hvort Taekwondo hentar þeim.

Og hvað græði ég?
Í fyrsta lagi 3 æfingar í viku hjá reyndum þjálfurum. Þú kemst í betra form, í góðum félagsskap, lærir bardagatækni og margt fleira… og flestir eru sammála um það að þú skemmtir þér vel og nýtur lífsins betur með Taekwondo.

 

© Texti: Jóel K. Jóelsson 

Styrktaraðilar ÍR

X