Íþróttafélag Reykjavíkur

Að æfa skíði

Fyrir skíðaæfingar

 • Mikilvægt er að vera klædd eftir veðri. Hlý undirföt, skíðasokkar úr ull, lambhúshetta eða buff innan undir hjálminn, snjóbuxur, úlpa og lúffur.
 • Hjálmaskylda er á öllum æfingum. Hjálmurinn þarf að vera viðurkenndur skíðahjálmur.
 • Góð skíðagleraugu sem passa vel á andlit barnsins og mikilvægt er að þau passi í hjálminn, dökk gler henta illa þar sem stór hluti æfinga fer fram í misjöfnum birtuskilyrðum.
 • Bakbrynja er skylda.
 • Gæta þess að lyftupassinn sé á sínum stað.
 • Að barnið sé á skíðum sem hentar hæð þess og getu. Gott er að leita ráða hjá þjálfara um val á skíðum og umhirðu.
 • Hollt og gott nesti á æfingar um helgar

Æfingahópar

Skráning á iðkendum fer fram með forritinu Sportabler sem er aðgengilegt hér: https://www.sportabler.com/shop/hengill

ÍR býður uppá afsláttarkjör ÍR tvenna og ÍR ungar. Þeir sem vilja nýta sér þessa afsláttarleiðir er bent á að hafa samband við Eirík Jensson gjaldkera (ejensson@gmail.com)

Skrá þarf iðkendur í réttan hóp í Sportabler með því að nota kóðana í töflunni fyrir neðan

Skráning í Sportabler
16 ára og eldri PEK76M
14-15 ára 48O6ZC
12-13 ára 63WS4K
10-11 ára GH8QXX
8-9 ára GR9FPE
7 ára og yngri 3S0WCW

Athugið

Skíði, bindingar, skíðaskór og hjálmar má ekki vera of gamalt, plast hefur ákveðinn endingartíma, verður stökkt og eiginleikar þess breytast á nokkrum árum. Ekki er ráðlagt að nota hjálm í meira en 5 ár og það ætti að skipta honum út ef hann verður fyrir höggi eða skemmdum.

Hengill er með öflugan skiptimarkað á facebook: Hengill_skiptimarkaður

7 ára og yngri

Æfingar fara fram á heimasvæði Hengils í skíðalyftunum Mikka ref og Kormáki afa. Fjórir þjálfara hafa umsjón með hópnum og skipta honum upp eftir getu og aldri. Gert er ráð fyrir að iðkendur geti farið sjálfir í lyftu þegar þeir byrja að æfa skíði.

Iðkendur taka þátt á Hengilsleikum, Breiðabliksleikum og Ármannsleikum í Bláfjöllum auk þess að fara á Andrésar Andarleika í apríl.

8-9 ára flokkur (3-4. bekkur)

Æfingar fara að mestu fram á heimasvæði Hengils í Mikka ref. Þrír þjálfara skipta hópnum á milli sín eftir aldri og getu.

8 -9 ára taka þátt á Hengilsleikum, Breiðabliksleikum og Ármannsleikum í Bláfjöllum auk þess að fara á Andrésar Andarleika í apríl.

Ekki er skylda að eiga sérstök stórsvigsskíði, hlífar á stafi eða leggi til að slá stangir, það er eðlileg þróun að iðkandi byrji á því á milli 10-13 ára og fer það eftir getu og vilja.

10-11 ára flokkur (5-6. bekkur)

Æfingar fara að mestu fram á heimasvæði Hengils í Mikka ref. Þrír þjálfara skipta hópnum á milli sín eftir aldri og getu.

10-11 ára keppa á Faxaflóamótum í svigi og stórsvigi. Fara á Jónsmót á Dalvík í mars og keppa á Andrésar Andarleikum í apríl.

Ekki er skylda að eiga sérstök stórsvigsskíði, hlífar á stafi eða leggi til að slá stangir, það er eðlileg þróun að iðkandi byrji á því á milli 10-13 ára og fer það eftir getu og vilja.

12-15 ára (7-10 bekkur)

Tveir þjálfara sjá um þennan flokk. Æfingar fara aðallega fram í Kóngsgili og Tvíburunum á suðursvæði Bláfjalla.

Í þessum flokki eru keppendur komnir á tvenn pör af skíðum (svig og stórsvig) og skylda að vera með FIS samþykktan stórsvigshjálm og galla. Ekki er nauðsyn að vera á nýjum skíðum og oft hægt að gera góð kaup á skiptimarkaði Hengils.

Iðkendur í þessum flokki taka þátt á Faxaflóamótum í Reykjavík, Bikarkeppni SKÍ, Unglingameistaramóti og Andrésar Andarleikum. Einnig er boðið upp á æfingaferð til útlanda í upphafi vetrar.

16 ára og eldri

Þjálfun í þessum flokki er í samstarfi við skíðadeildirnar á Höfuðborgarsvæðinu undir Skíðalið Reykjavíkur og Breiðabliks, SLRB. Hér er boðið upp á mjög metnaðarfullt starf og margir iðkendur sem hafa sett sér háleit markmið. Keppt er á Bikarmótum SKÍ og Skíðalandsmóti hér innanlands. Bikarmótin í þessum flokki eru einnig alþjóðleg FIS mót. Iðkendur keppa einnig töluvert erlendis og býðst að fara í æfingaferðir erlendis bæði fyrir og eftir áramót.

Hér er gerð krafa um FIS samþykktan búnað.

Hlutverk foreldra/forráðamanna

Allt íþróttastarf er meira og minna rekið af foreldrum iðkenda í sjálfboðavinnu og eru skíðadeildir ÍR og Víkings þar engin undantekning. Skíðadeildir ÍR og Víkings starfa saman undir nafninu Hengill. Allir foreldrar (eða forráðamenn) barna sem æfa skíði hjá Hengli eru félagar í foreldrafélagi Hengils. Foreldrar eru hvattir til að taka þátt í íþróttastarfi barna sinna með því að bjóða fram krafta sína í stjórnir, nefndir, mótahald og öðrum tilfallandi viðvikum þegar á þarf að halda. Þessi störf eru skemmtilegur vettvangur til að kynnast og hafa í gegnum tíðina myndast órjúfanleg vinatengsl.

 

Sjoppan: Rekstur sjoppunnar er mikilvægur þáttur í fjáröflun deildanna og ætlast er til að hver fjölskylda taki tvær vaktir yfir veturinn.

 

Mótahald: Ekki er nauðsynlegt að kunna á skíði til að geta aðstoðað við mótahald en ekki er hægt að halda skíðamót án aðkomu foreldra. Foreldrar koma að neðan greindum verkefnum við mótahald:

 • Undirbúningur: Mótsboð og skráning. Finna til númer og afhenda. Uppsetning á marki, starti, öryggisnetum og fleira. Útbúa nesti fyrir starfsmenn.
 • Portavarsla: Fylgjast með brautinni og hvort keppendur fari rétta leið. Portaverðir sem ekki eru vanir fá aðstoð við að koma sér inn í sitt hlutverk. Því fleiri sem fást í portavörslu því færri port þarf hver og einn að fylgjast með.
 • Brautarvinnsla: Aðstoða brautarstjóra við að halda brautinni í góðu ásigkomulagi með því að skafa brautina, rétta við stangir o.s.frv.
 • Frágangur: Taka á móti númerum frá keppendum og ganga frá þeim. Taka niður mark, keppnisbrautir og start. Koma öllum búnaði í geymslur.

 

 

Fjölskyldu og æfingaferðir

Annað hvert ár er farið í stóra fjölskyldu og æfingaferð í upphafi janúar. Ferðirnar eru frá viku upp í 10 daga og aðallega fyrir fjölskyldur iðkenda í flokki 8 – 11 ára þó svo að fjölskyldum í öllum flokkum sé að sjálfsögðu velkomið að koma með.

Samskipti foreldra við þjálfara

Hengill leggur mikið upp úr góðum samskiptum foreldra og þjálfara. Skíðabrekkan er æfingasvæði barna og þar er gleðin alltaf við völd. Ef foreldrar hafa einhverjar athugasemdir

sem snúa að þjálfun iðkenda eða skipulagi og niðurröðun í æfingahópa, þá fara þær athugasemdir fram í gegnum stjórn Hengils og alpagreinanefnd. Foreldrum er með öllu óheimilt að gera athugasemdir við þjálfara varðandi ofangreind atriði og annað sem á þeim brennur, á æfingasvæði iðkenda og þar sem iðkendur heyra til.

 

Styrktaraðilar ÍR

X