Uppskeruhátíð FRÍ

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir

ÍR-ingar á uppskeruhátíð FRÍ

Uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram í síðastliðinn föstudag, 22. nóvember, en þar var frjálsíþróttaárið 2019 gert upp í máli og myndum og veittar voru ýmsar viðurkenningar. Það er skemmst frá því að segja að ÍR-ingar uppskáru mjög ríkulega. Af 26 einstaklingsviðurkenningum komu 14 þeirra í hlut ÍR-inga, eða 54%. Þessar 26 viðurkenningar skiptust niður á 18 einstaklinga en þar af voru 9 þeirra ÍR-ingar, eða 50%. Stærstu verðlaunin voru val á frjálsíþróttafólki ársins en ÍR-ingurinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir var valin frjálsíþróttakona ársins sem er einstakt en hún er aðeins 17 ára gömul.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – frjálsíþróttakona ársins, besta spretthlaupsafrekið og stúlka ársins 19 ára og yngri.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir bætti á árinu Íslandsmet kvenna í bæði 100 og 200m spretthlaupi og jafnaði Íslandsmet Tiönu Óskar Whitworth í 60m hlaupi innanhúss. Hún var í sveit sem setti Íslandsmet í 4×200m boðhlaupi á Reykjavík International Games (RIG) innahúss í febrúar. Auk þessara Íslandsmeta setti hún nokkur aldursflokkamet, bæði sem einstaklingur og í boðhlaupi. Á EM U20 í Borås í Svíþjóð hafnaði hún í fjórða sæti í 200m hlaupi. Á uppskeruhátíðinni hlaut hún Guðbjörg Jóna einnig Jónsbikarinn fyrir besta spretthlaupsafrekið og var valin stúlka ársins 19 ára og yngri. Þá ber þess að geta að hún átti tvö af fimm stigahæstu afrekum síðasta sumars samkvæmt stigatöflu IAAF/worldathletics.

Aníta Hinriksdóttir – millivegalengdahlaupari ársins í kvennaflokki.

Þrátt fyrir að árið 2019 hafi verið nokkuð erfitt fyrir Anítu vegna meiðsla fékk hún viðurkenninguna millivegalengdahlaupari ársins. Vegna meiðslanna gat hún ekki beitt sér í fyllilega en náði þó frábæru 800m hlaupi á Reykjavík International Games sem gefur 1.107 IAAF stig. Hún náði einnig frábærum árangri í 1.500m hlaup í Henglo í Hollandi þar sem hún hljóp á 4:14,00 mínútum en það var þriðji besta afrekið stigalega séð síðasta sumar. Aníta náði lágmarki í bæði 800m og 1.500m á EM innanhúss.

Arnar Pétursson – frjálsíþróttakraftur

Arnar er öllum kunnur en auk afreka sinna í hlaupaskónum á árinu gaf hann út bók fyrir hlaupara og annað íþróttafólk nú nýverið. Auk þess þjálfar hann ört stækkandi hóp hlaupara og hefur verið mjög hvetjandi í garð almennings undanfarin ár og talar máli hlaupanna sem góðarar heilsuræktar fyrir alla aldurshópa. Fyrir þetta hlaut hann viðurkenninguna frjálsíþróttakraftur.

Benjamín Jóhann Johnsen – fjölþrautakarl ársins

Það eru ekki ýkja mörg ár síðan Benjamín tók að æfa frjálsar og er sá árangur sem hann hefur náð í frjálsum íþróttum mjög athyglisverður í því ljósi. Á árinu 2019 náði hann sínum besta árangri á European Combined Events Team Championships á Madeira, Portúgal, en þar náði hann 7.146 stigum. Sá árangur kom honum í 10. sæti íslenska afrekalistans í tugþraut frá upphafi.

Brynjar Gunnarsson – þjálfari ársins

Það þarf engum að koma á óvart að Brynjar var útnefndur þjálfari ársins en meðal þeirra sem hann þjálfar eru Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth en árangur þeirra og margra annarra sem hann hefur þjálfað segir meira en mörg orð. Brynjar lætur erfiðan sjúkdóm ekki buga sig í þessum efnum og metnaðurinn sem hann sýnir í þjálfun er eftirtektarverður.

Elín Edda Sigurðardóttir – götu- og langhlaupari ársins í kvennaflokki

Þetta var svo sannarlega árið hennar Elínar Eddu en óhætt er að segja að árangur hennar í heilu maraþoni í Amsterdam standi hæst upp úr. Þar hljóp hún á 2:44:48 klst og varð í 33. sæti af konunum. Hún bætti sig um rúmlega fjórar mínútur frá því í Hamborg í vor og gaf þessi árangur hennar 992 IAAF árangursstig. Besta tíma íslenskrar konu á Martha Ernsdóttir sem er þjálfari Elínu Eddu en Íslandsmet Mörthu er 2:35:15 klst sem hún hljóp þann 26. september 1999.

Fríða Rún Þórðardóttir – viðurkenning fyrir frábæran árangur á EM og HM eldri frjálsíþróttamanna

Fríða Rún hlaut viðurkenningu fyrir frábæran árangur á EM og HM eldri frjálsíþróttamanna, en á EM í haust hlaut hún silfur í víðavangshlaupi og brons í 10 km götuhlaupi. Fríða Rún hefur keppt frá 11 ára aldri, lætur ekki deigan síga og stendur jafnfætis sér mun yngri iðkendum í millivegalengdum og langhlaupum.

Guðni Valur Guðnason – stigahæsta afrekið

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason átti stigahæsta afrekið á síðasta ári en því náði hann er hann kastaði 64,77 metra á móti í lok maí í Viimsi í Eistlandi. Hlaut hann fyrir það 1.148 árangursstig sem er árangur á heimsmælikvarða og gefur honum sæti mjög ofarlega hvort heldur sem er á Evrópu- eða heimslistanum. Guðni var eini Íslendingurinn sem keppti á HM í Doha í byrjun september. Líkt og Aníta var Guðni nokkuð meiðsla plagaður á árinu 2019. Hann þurfti meðal annars að leggjast inn á sjúkrahús vegna botlangakasts og í kjölfarið lífhimnubólgu í upphafi árs og mátti hann ekki gera neitt í einn og hálfan mánuð á eftir það. Hann er vonandi á góðri leið að ná fullri heilsu. Guðni var í 30. sæti á heimslista IAAF og 19. sæti á Evrópulistanum í lok utanhússtímabilsins.

Hlynur Andrésson – götu-, lang- og millivegalendahlaupari ársins í karlaflokki

Það verður ekki af Hlyni tekið að árangur hans á árinu 2019 var framar björtustu vonum. Hann setti m.a. Íslandsmet í 5.000m utanhúss og 10 km götuhlaupi og í 1.500m og 3.000m innanhúss. Hlynur var nú síðast í 2. sæti á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum og náði lágmarki á EM í 3000m innahúss og var í top 50 í þeirri vegalengd í Evrópu á síðasta innanhúss tímabili.

Hér má sjá heildarlista yfir viðurkenningar ársins 2019 sem komu í hlut ÍR-inga.

 Samantekt á tilnefningum ÍR-inga á uppskeruhátíð 2019

  • Þjálfari ársins: Brynjar Gunnarsson
  • Stúlka ársins 19 ára og yngri: Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
  • Götuhlaupari ársins í karlaflokki: Hlynur Andrésson
  • Götuhlaupari ársins í kvennaflokki: Elín Edda Sigurðardóttir
  • Langhlaupari ársins í karlaflokki: Hlynur Andrésson
  • Langhlaupari ársins í kvennaflokki: Elín Edda Sigurðardóttir
  • Stigahæsta afrek: Guðni Valur Guðnason
  • Jónsbikar: Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
  • Millivegalengdahlaupari ársins í kvennaflokki: Aníta Hinriksdóttir
  • Millivegalengdahlaupi ársins í karlaflokki: Hlynur Andrésson
  • Fjölþrautakarl ársins: Benjamín Jóhann Johnsen
  • Frjálsíþróttakraftur: Arnar Pétursson
  • Fríða Rún Þórðardóttir, viðurkenning fyrir frábæran árangur á EM og HM eldri frjálsíþróttamanna

— Greinina skrifuðu Bjarni Lárusson og Fríða Rún Þórðardóttir

X