Silfurleikar ÍR 2019 graphic

Silfurleikar ÍR 2019

26.11.2019 | höf: Kristín Birna

Laugardaginn 24. nóvember fóru Silfurleikar ÍR fram í Laugardalshöll í 24. skipti en leikarnir hafa verið haldnir árlega frá árinu 1996. Sem fyrr var mótið mjög fjölmennt en að þessu sinni mættu 545 börn og ungmenni upp að 17 ára aldri til keppni frá 33 félögum. 270 voru skráðir til keppni í 11 ára og yngri, en 275 keppendur í flokkum 12 ára og eldri. Í síðargreindu aldursflokkunum voru 975 skráningar í greinar eða liðlega 2,6 greinar á hvern keppanda. Gaman er frá því að segja að persónulegar bætingar keppenda voru 493 talsins. Að þessu sinni var keppnisfyrirkomulagið á þann veg að 9 ára og yngri kepptu í fjölþraut barna, 10-11 ára í fjórþraut og 12 ára í fimmtarþraut. Þrettán ára og eldri kepptu í hefðbundnum frjálsíþróttagreinum.

Til þess að halda mót af svona stærðargráðu þarf mikinn fjölda starfsmanna. Að þessu sinni lögðu 120 starfsmenn hönd á plóginn en það er sá fjöldi sem þarf til þess að allt gangi snurðulaust fyrir sig. Það þarf mikla útsjónarsemi, skipulagningu og mannfjölda til þess að láta allt ganga upp þegar mest lætur. Nánast hver einasti fermetri í Frjálsíþróttahöllinni er nýttur til keppni og leikja enda eru, þegar mótið stendur hvað hæst, mörg hundruð keppendur við keppni á sama tíma. ,,Á hliðarlínunni“ er auk þess fjöldi þjálfara að leiðbeina keppendum og starfsmenn við vinnu sína.

Að þessu sinni var bryddað upp á þeirri nýjung að keppendur í 12 ára flokki kepptu í svokallaðri fimmtarþraut en í henni var keppt í hástökki, 60 m spretthlaupi, kúluvarpi, þrístökki og 600 m hlaupi. Tilgangurinn með þessu nýja fyrirkomulagi var m.a. sá að stuðla að fjölgun þátttakenda í tæknigreinum og 600 metra hlaupi og fjölga verðlaunahöfum í flokknum með því að verðlauna tíu efstu í þrautinni. Hvoru tveggja tókst en fyrir ári var meðalþátttaka í hverri grein 60% hjá báðum kynjum en í ár var meðalþátttakan hjá piltunum 82% og 70% hjá stúlkunum. Verðlaunahöfum fjölgaði um sex miðað við hefðbundið fyrirkomulag.

ÍR-ingar hafa oft verið framsæknir varðandi framkvæmd móta og verið óhræddir að fara nýjar leiðir í þeim efnum. Aðallega í þeim tilgangi að gera keppnina skemmtilegri fyrir þátttakendur og kanna nýjar leiðir til þess að gera þessa íþrótt eftirsóknarverðari fyrir börn og unglinga. Það er mat margra að frjálsíþróttahreyfingin þurfi jafnvel að fara að endurskoða fyrirkomulag móta þeirra yngstu til að bregðast við ýmsum breytingum sem orðið hafa á síðustu misserum. Frjálsíþróttadeild ÍR reynir að leggja sitt af mörkum til þess að bregðast við þessu. Það er bjargföst trú okkar að þessar framsæknu breytingar á mótafyrirkomulagi hafi leitt til þess að mót á vegum ÍR eru þau stærstu sem haldin eru af félagsliðum hérlendis.

Frjálsíþróttadeild ÍR vill þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við framkvæmd leikanna kærlega fyrir veitta aðstoð og öllum keppendum og aðstandendum sem lögðu leið sína í Frjálsíþróttahöllina á laugardag fyrir góða samveru og skemmtilega keppni.

Nánari upplýsingar um úrslit má finna hér

.

X