Silfurleikar ÍR graphic

Silfurleikar ÍR

20.11.2019 | höf: Kristín Birna

Laugardaginn 23. nóvember n.k. verða Silfurleikar ÍR haldnir í 24. sinn en þeir eru eitt stærsta og fjölmennasta frjálsíþróttamótið innanhúss sem haldið er ár hvert. Verða þeir sem fyrr haldnir í Laugardalshöll en mótið er eitt þriggja innanhússmóta sem ÍR-ingar standa fyrir á ári hverju en hin eru Bronsleikar ÍR og Stórmót ÍR.

Silfurleikarnir voru fyrst haldnir árið 1996 og hétu þá Haustleikar ÍR. Nafninu var breytt árið 2006 til að minnast þess að 50 ár voru þá liðin frá því að ÍR-ingurinn Vilhjálmur Einarsson vann það glæsta afrek að hljóta silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourn í Ástralíu. Með Silfurleikum vilja ÍR-ingar minnast þessa mikla afreks og þrístökk skipar því veglegan sess á mótinu eins og vera ber. Þess má geta að gildandi aldursflokkamet í þrístökki innanhúss í fimm aldursflokkum stúlkna og drengja hafa verið sett á Silfurleikunum undanfarin ár.

Þegar fyrstu leikarnir voru haldnir haustið 1996 þótti það mikil nýlunda að halda frjálsíþróttamót innanhúss eingöngu fyrir börn og unglinga að hausti til. Þátttakendur á fyrsta mótinu voru innan við eitt hundrað en sú tala hefur margfaldast eftir að árin liðu og mótið festist í sessi. Á sjötta hundrað börn og unglingar, frá á fjórða tuga félaga, upp að 17 ára aldri hafa mætt á Silfurleika ÍR síðustu árin og engin ástæða er til að ætla annað en að þátttakan verði með svipuðu móti í ár.

Segja má að Silfurleikarnir hafi rutt brautina í mótahaldi að hausti til og nú eru haldin mörg mót innanhúss hér á landi fyrir börn og unglinga á þessum tíma árs. Fyrirkomulagið er á þann hátt að 9ára og yngri keppa í fjölþraut barna, 10-11 ára í fjórþraut og 12 ára í fimmtarþraut. 13 ára og eldri keppa í hefðbundnum frjálsíþróttagreinum og keppa margir í fleiri en tveimur greinum og jafnvel í sex til sjö.

Áhugasamir eru hvattir til þess að mæta í Laugardalshöll á laugardag og hvetja keppendur til dáða en það er ókeypis inn, aðstaða fyrir áhorfendur er til fyrirmyndar og keppnin fjölbreytt og spennandi. Nánari upplýsingar um Silfurleikana er að finna á https://ir.is/silfurleikar/

X