Stjörnuhlaupið fór fram í Garðabæ í morgun í grenjandi rigningu en ekki miklum vindi. ÍR átti sigurvegara í öllum flokkum í báðum vegalengdum og setti okkar fólk verulegan svip á hlaupið.
Í 5 km karla sigraði Þórólfur Ingi Þórólfsson á 16:24 mín, Vilhjálmur Þór Svansson varð 2. á 16:49 mín og Valur Þór Kristjánsson 3. á 17:16 mín. Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í 5 km kvenna á 18:15 mín, en Andrea varð 5. í mark og voru fyrstu fimm hlaupararnir í mark allir frá ÍR. Í 10km kvenna sigraði Elín Edda Sigurðardóttir á nýju persónulegu meti 37:08 mín en með þessu stekkur hún upp í 8. sæti á íslenskri afrekaskrá í 10 km götuhlaupi. Fríða Rún Þórðardóttir varð 2. í mark á 40:16 mín. Arnar Pétursson kom lang fyrstur allra í mark á 32:58 mín í 10 km karla.
Boðið var upp á súpu í lok hlaups sem var kærkomið fyrir rennandi blauta hlaupara og brautarverði.
Til hamingju ÍR-ingar.
Fríða Rún Þórðardóttir tók saman.