Hafsteinn Óskarsson ÍR varð í 3. sæti í 1500m 55 ára á frábærum tíma 4:33 mín en hann átti best 4:37 mín frá 2016. 16 hlauparar kepptu í úrslitum og var Hafsteinn í 6. sæti þegar 150m voru eftir en tók þvílíkan endasprett, fór fram úr einum af öðrum þeim síðasta 1 m frá marklínunni. Glæsileg frammistaða hjá Hafsteini og nýtt Íslandsmet í flokki 55 ára.
Fríða Rún, sem varð þriðja í sínum aldursflokki í 4 km víðavangshlaupi fyrr í dag, ákvað að hlaupa líka 1500m. Hún hafnaði í 11. sæti á 5:13,29mín.
Ólafur Þorbjörnsson Breiðabliki hljóp til úrslita í 1500m 35 ára hann varð 14. í mark og bætti sig hljóp á 4:17,23 mín. Óli er að keppa á sínu fyrsta stórmóti í öldungaflokkum. Jón Bjarni Bragason Breiðabliki keppti í 2 klst langri kringlukastkeppni 45 ára og hafnaði í 6. sæti af 20 keppendum, kastaði 41,63m frábær frammistaða hjá Jóni Bjarna.
Fínn dagur hjá Íslendingum en Kristófer Sæland keppir á morgun í spjótkasti og á þriðjudag er frí frá allri keppni en á miðvikudag keppir Fríða Rún í 5000m og Jón Bjarni og Jón Magnússon báðir í sleggjukasti. Góð stemming er hjá hópnum og allir duglegir að koma og hvetja og vera til staðar hvort fyrir annað. Þrír íslenskir hvetjarar eru með í för sem standa sig vel í að aðstoða keppendur og hvetja.