Íþróttafélag Reykjavíkur

Elísabet Lilja og Suzanna Sofía gengnar til liðs við ÍR

Enn var penninn á lofti í ÍR-heimilinu þegar þær Elísabet Lilja Ísleifsdóttir og Suzanna Sofía Palma Rocha rituðu undir samning við félagið um að leika með því næstu 3 árin.
Elísabet er uppalin ÍR-ingur, fædd árið 2003 og því 18 ára á árinu. Elísabet (Ella) lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk árið 2018 og lék alls 15 leiki á síðasta leiktímabili og er orðin mikilvægur hlekkur í liðinu.
“Ella er harðduglegur og grimmur leftari sem hefur verið að bæta sig mikið undanfarin ár. Hún hefur lagt sig mjög hart fram á æfingum vetrarins og ég er sannfærður um það að hún á eftir að taka stór skref framávið á sínum ferli í sumar og á næstu árum. Hún getur leyst bæði bakvarðar- og vængstöðuna vinstra megin, enda áræðin í sínum aðgerðum” sagði Engilbert þjálfari við undirritunina.
Suzanna kom til ÍR liðið sumar frá Gróttu og lék eins og Ella 15 leiki í fyrra og skoraði í þeim tvö mörk. Auk þess að vera öflug fótboltakona hefur Suzanna æft MMA, grjóthörð kona hér á ferð!
“Suzanna hefur í vetur verið að leysa kantstöðurnar sóknarlega hjá okkur enda fljót og með fína tækni. Hún leggur sig alltaf mjög hart fram á æfingum og gerir heilmiklar kröfur til sín og samherja sinna” segir Engilbert og heldur áfram: “Hún er klárlega leikmaður sem við horfum til að verða stór þáttur í okkar sóknarleik nú í sumar og erum handviss um að hún mun bæði skora og leggja fullt upp í deildinni”.
Formaðurinn þurfti auðvitað líka að tjá sig! “Ella er auðvitað komin á það stig að vera fyrirmynd fyrir það sem við viljum sjá, uppalin ÍR-stelpa sem hefur styrkst á hverju ári og er nú að verða tilbúin til að spila stórt hlutverk í uppbyggingu félagsins, hefur þroskast ótrúlega sem leikmaður. Suzanna er svona “quiet assassin” leikmaður, hún er ótrúlega útsjónarsöm og aggressív týpa af leikmanni sem að sýndi okkur í fyrra hvað býr í henni. Ég er viss um að hún tekur fleiri skref áfram í sumar og sýnir enn fleiri sterkar hliðar með #hvítbláahjartað á brjóstinu.
Við hlökkum mjög að sjá til stelpnanna í hvítbláu næstu tímabil.
X