Rósa Björk og Berta Sóley komnar í blátt graphic

Rósa Björk og Berta Sóley komnar í blátt

21.02.2021 | höf: ÍR

Ofvirku ÍR-pennarnir halda áfram að vinna!
Það voru þær Rósa Björk Borgþórsdóttir og Berta Sóley Sigtryggsdóttir sem notuðu þá til að rita undir samninga við félagið nú í vikunni, en báðar gengu til liðs við okkur ÍR-inga á liðnu sumri.
Berta Sóley kom í sumarglugganum til okkar frá Gróttu en vegna þess hve mótið var stytt náði hún minna að sýna en hún ætlaði sér. Margrét þjálfari er handviss um að meira mun verða vart við frammistöðurnar á komandi sumri. “Berta hefur æft vel í vetur og er staðráðin í að grípa það tækifæri sem liggur fyrir henni. Hún hefur verið að leysa ólík hlutverk ofarlega á vellinum, er áræðin og útsjónarsamur leikmaður sem við reiknum með miklu af”.
Rósa Björk er Skagfirðingurinn í Breiðholtinu, fulltrúi Lýtingsstaðahrepps og grjóthörð eftir því! Hún vann sig inn í liðið þegar leið á sumarið og hefur átt fast sæti í liðinu nú í vetrarleikjunum. Margrét fær orðið:
“Rósa er bakvörður með stóru B-i. Hún er mjög sterk í one-on-one aðstæðum og ekki einfalt að fara framhjá henni. Hún er alger nagli og myndi örugglega henda sér fyrir lest ef þess þyrfti til að koma í veg fyrir að við fengjum á okkur mark. Hún hefur í vetur verið að styrkjast heilmikið framávið og við hlökkum til að sjá hana eflast með aukinni ábyrgð”.
Formaðurinn er hæstánægður með að Berta og Rósa hafi nú skuldbundið sig hjá ÍR.
“Stelpurnar voru að stíga sín fyrstu skref hjá okkur í fyrra og hafa í vetur verið að taka vel á því á æfingum. Þær eru báðar metnaðarfullar og tilbúnar að leggja það á sig sem þarf. Við fórum þá leið í vetur að stækka umgjörð þjálfunarinnar hjá flokknum og þær Rósa og Berta eru gott dæmi um stelpur sem hafa gripið það tækifæri og eru stöðugt að bæta sig!”
Við hlökkum til að sjá þær berjast fyrir hvítbláar næsta sumar!
#hvítbláahjartað
X