Mannabreytingar í aðalstjórn og verðlaunaafhendingar á aðalfundi ÍR 10. júní

Aðalfundur Íþróttafélags Reykjavíkur fór fram í gær, fimmtudaginn 10. júní í ÍR-heimilinu í Skógarseli. 

Góð mæting var á fundinn og gaman var að sjá mörg andlit samankomin sem ekki hefur sést um tæplega 15 mánaða skeið vegna Covid-19.

Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf ásamt því að veittar voru heiðursviðurkenningar til þeirra sjálfboðaliða sem tilnefndir voru til silfur- og gullmerkis fyrir seinustu áramót.

Nokkuð var um mannabreytingar í aðalstjórn félagsins þar sem sex nýir einstaklingar tóku sér sæti í aðalstjórn fyrir aðra sex sem stigu út.

Þar á meðal uðru breytingar á formanni félagsins en Ingigerður Guðmundsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu, eftir fimm ára skeið sem formaður og samfleytt átta ára setu í aðalstjórn.
Aðrir fráfarandi stjórnarmeðlimir voru þau Reynir Leví Guðmundsson gjaldkeri, Sigurður Albert Ármannsson ritari, Addy Ólafsdóttir varaformaður, Rúnar G. Valdimarsson stjórnarmeðlimur og Kristín Steinunn Birgisdóttir stjórnarmeðlimur. ÍR vill færa þessu fólki sérstakar þakkir fyrir sín óeigingjörnu störf í þágu félagsins undanfarin ár.

Nýr formaður aðalstjórnar er Vigfús Þorsteinsson. Vigfús er ÍR-ingum vel kunnur en hann hefur verið tengdur félaginu í hartnær 40 ár sem iðkandi, leikmaður, foreldri, þjálfari, stjórnarmeðlimur handknattleiksdeildar og margt fleira. Enn fremur hefur Vigfús langa reynslu af starfsemi íþróttahreyfingarinnar í landinu og er því ýmsum hnútum kunnugur þegar kemur að málum íþróttafélagsins. ÍR óskar Vigfús velkominn til starfa og til hamingju með kjörið.

Aðrir nýjir meðlimir í aðalstjórn ÍR eru þau Ólafur Gylfason, Hlynur Elísson, Auður Sólrún Ólafsdóttir, Guðmundur Óli Björgvinsson og Lilja María Norðfjörð.

Lísa Björg Ingvarsdóttir situr einnig áfram í aðalstjórn ÍR frá síðasta ári.

ÍR óskar þessu frábæra fólki einnig til hamingju með kjörið og velkomið til starfa.

Á fundinum voru eins og áður segir veitt heiðursverðlaun til sjálfboðaliða innan félagsins. Alls voru 14 silfurmerki og 3 gullmerki ÍR afhent þetta árið.
Heiðursverðlaunahafar ÍR þetta árið voru eftirfarandi:

Silfurmerki ÍR
Fríða Jónsdóttir – Skíðadeild
Rut Þórisdóttir – Knattspyrnudeild
Linda Hrönn Gylfadóttir – Knattspyrnudeild
Davíð Hedín – Handknattleiksdeild
Markús Ómar Sigurðsson – Handknattleiksdeild
Anna Margrét Sigurðardóttir – Handknattleiksdeild
Guðný Eggertsdóttir – Körfuknattleiksdeild
Svahildur Sverrisdóttir – Körfuknattleiksdeild
Petra Jónsdóttir – Körfuknattleiksdeild
Birgir Lúðvíksson – Körfuknattleiksdeild
Guðni Fannar Carrico – Körfuknattleiksdeild
Guðbrandur Daníelsson – Körfuknattleiksdeild
Stefán Claessen – Keiludeild
Unnur Árnadóttir – Frjálsíþróttadeild

Gullmerki ÍR
Jón Kornelíus Magnússon – Skíðadeild
Jón Oddsson – Frjálsíþróttadeild
Brynjar Gunnarsson – Frjálsíþróttadeild

Síðasti verðlaunahafi kvöldsins var Brynjar Gunnarsson frjálsíþróttaþjálfari en hann var ásamt öðrum tilnefndur fyrir seinustu áramót.
Brynjar glímdi við veikindi um langa hríð og þjálfaði með góðum árangri all fram á síðasta dag en hann lést eftir erfiða baráttu við krabbamein í apríl á þessu ári.
Brynjar skilur eftir sig stórt skarð sem erfitt verður að fylla en minningarnar munu lifa um ókomna tíð meðal ÍR-inga.
Sonur Brynjars, Máni tók við verðlaununum fyrir föður sinn og mun varðveita þau.

Meðfylgjandi eru myndir frá viðburðinum. ÍR þakkar jafnframt Þorsteini Jóhannessyni fyrir myndatökuna!

 

Runólfur Sveinsson formaður kjörbréfanefndar fer yfir stöðuna – bæði með og án gleraugna! 

Jón Kornelíus Magnússon og Fríða Jónsdóttir úr skíðadeild – Heiðursverðlaunahafar

Fulltrúar körfuknattleiksdeildar í heiðursveðlaunahópi kvöldsins

Magnús Þór Jónsson formaður knattspyrnudeildar peppar fundargesti – stuttorður að vanda!

Jóhann Ágúst Jóhannsson, stjórnarmaður í keiludeild fer yfir aðstöðumál keiluíþróttarinnar í Reykjavík.

Máni Brynjarsson og Jón Kornelíus Magnússon, gullmerkishafar ÍR. 

Silfurmerkishafar ÍR – frábær hópur ÍR-inga!

Reynir Leví Guðmundsson fráfarandi gjaldkeri aðalstjórnar fer yfir ársreikninga og fjárhagsáætlun næsta árs. 

Ingigerður Guðmundsdóttir fráfarandi formaður aðalstjórnarfer yfir starfsárið 2020 og þakkar um leið fyrir sinn tíma í aðalstjórn félagsins. 

Þorsteinn Ingi Garðarsson ritari fundarins passar að allt sé fært til bókar. 

Fundarstjóri aðalfundarins Sigurður Albert Ármannsson hélt fast um dagskrána og passaði að allt færi fram með sóma. 

Vigfús Þorsteinsson nýkjörinn formaður aðalstjórnar þakkar fyrir sýnt traust og slítur fundi. 

 

 

X