Rees Greenwood gengur til liðs við ÍR

Knattspyrnudeild ÍR hefur samið við enska leikmanninn Rees Greenwood um að spila með liðinu á komandi tímabili.
Í tilkynningu knattspyrnudeildar segir:
“Þær fréttir getum við nú flutt ykkur að enski knattspyrnumaðurinn Rees Greenwood hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild ÍR um að leika með félaginu í 2.deildinni sumarið 2021.
Rees kemur úr norðausturhluta Englands, var ungur valinn í akademíu Sunderland FC og lék með þeim allt upp í aðallið þar sem hann náði m.a. Úrvalsdeildarleik á þeim tíma sem Big Sam Allardyce var við stjórnvölinn.
Eftir að að hafa verið á mála hjá Sunderland fór hann til Gateshead í neðri deildum Englands og þaðan til Falkirk í Skotlandi. Þaðan lá leiðin aftur í neðri deildir Englands áður en boltinn færði hann til Sameinuðu arabísku furstadæmana nú í vetur þar sem hann lék með Al-Sahel.
Greenwood er grjótharður skapandi miðjumaður sem náði m.a. þeim árangri að leika með yngri landsliðum Englands. Hann er fæddur í desember 1996 og því á sínu 25. aldursári.
Arnar þjálfari Hallsson var lykillinn að því að finna Rees og hefur mikla trú á kappanum:
“Ég er mjög spenntur fyrir því að vinna með Rees. Hann hefur ótvíræða hæfileika sem leikmaður og mun styrkja okkar lið mikið. Ennfremur held ég að hann muni hjálpa okkar ungu leikmönnum að þroskast og bæta sig sem leikmenn”.
Knattspyrnudeild ÍR býður Rees Greenwood hjartanlega velkominn í hópinn, við hlökkum til að sjá hann berjast fyrir málstað #hvítbláahjartað
X