Jörgen Petterson frá Noregi í ÍR graphic

Jörgen Petterson frá Noregi í ÍR

20.03.2021 | höf: ÍR

Í dag bættist í hóp leikmanna meistaraflokks karla hjá okkur ÍR-ingum þegar Norðmaðurinn Jörgen Petterson skrifaði undir samning sem tryggir okkur krafta hans sumarið 2021.
Jörgen sem er á 24.aldursári hóf knattspyrnuferilinn í yngri flokka starfi heimaliðs síns, Trosvik IF en þegar hann var 15 ára gekk hann til liðs við unglingaakademíulið Fredrikstad FK þar sem hann lék um þriggja ára skeið. Að því tímabili loknu flutti hann sig yfir til Bandaríkjanna þar sem hann hóf háskólanám við Southern Illinois University ásamt því að leika knattspyrnu með skólaliðinu.
Hann sneri heim til Noregs á síðasta ári og lék síðasta haust með Kvik Halden FK í þriðju efstu deild þar í landi. Hann ákvað svo í janúar að skella sér aftur á skó, kom á reynslu til okkar nú í byrjun mars og eftir að hafa æft með liðinu í um 10 daga var gengið frá félagaskiptum í vikunni og eftir að hann skrifaði undir samning í dag fær hann leikheimild með liðinu og er því gjaldgengur í leiki liðsins héðan frá.
Jörgen sem er miðjumaður að upplagi hefur eiginleika sem Arnar þjálfari telur að nýtist liðinu:
“Jörgen er týpa sem okkur vantaði í liðið, skapandi miðjumaður sem er góður skotmaður. Rólegur og yfirvegaður leikmaður sem tekur góðar ákvarðanir, enda er hann stærðfræðingur að mennt. Hann á mjög mikið inni sem leikmaður. Hann hefur ekki fengið frábæra þjálfun sýnist mér en náttúrulegir hæfileikar og innsæi í leikinn leyna sér ekki.
Ég er vongóður um að við náum að laða það besta fram í Jörgen á næstu mánuðum og að hann muni styrkja okkur umtalsvert þegar hann hefur komist inn í okkar leikstíl og áherslur. Hann var mjög áhugasamur um að ganga til liðs við okkur og er alveg einstaklega viðkunnalegur ungur maður sem mun falla vel inn í hóp þeirra leikmanna sem fyrir eru hjá okkur.”
Við bjóðum herr Petterson hjartanlega velkominn í hópinn!
#hvítbláahjartað
X