Frábær árangur ÍR á Meistaramóti Íslands 13. – 14. mars

Frábær árangur náðist á MÍ aðalhluta sem fram fór í Laugardalshöll 13.-14. Mars. ÍR sigraði stigakeppni kvenna með 30 stig, 5 stigum meira en FH og ÍR karlar sigruðu FH einnig með 5 stiga mun, 28 gegn 25 stigum en gefin eru 3 stig fyrir sigur, 2 fyrir silfur og 1 fyrir brons. Alls hlaut ÍR 58 stig, en verðalunin skiptust þannig að ÍR hlaut 12 gull, 7 silfur og 8 brons.

Það sem stóð uppúr var margt árangurslega séð, en endurkoma Bjargar Gunnarsdóttur í keppni gladdi marga. Hún sigraði í 800m hlaupi á 2:15,73 mín og var í sigursveit ÍR í 4 x 400m boðhlaupi en hún keppti síðast árið 2014! Hulda Þorsteinsdóttir, er einnig að koma til baka eftir erfið meiðsli og sigraði í stangarstökkinu með 20 cm hærra stökk en næsta. Frábært hjá henni og gaman að sjá þær báðar mættar í keppnisgallanum.

Aðrir ÍR ingar stóðu sig einnig fábærlega, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði í 60m, 200m og var í sigursveit ÍR í 4 x 400m boðhlaupi, hún var með stigahæsta árangur konu á mótinu bæði fyrir 200m 1062 stig og 60m 1055 stig. 60m tími Guðbjargar, 7,49 sek var auk þess mótsmet!

Guðni Valur Guðnason sigraði kúluna og átti annað besta karlaafrek mótsins. Ívar Kristinn Jasonarson sigraði í 400m og náði þriðja besta árangri karls og var í sigursveit ÍR í 4 x 400m boðhlaupi. Aðrir í sveitinni voru þeir Hugi Harðarson, Bergur S. Sigurðsson og Dagur Fannar Einarsson.

Eins og áður segir sigruðu ÍR konur í 4 x 400m boðhlaupinu en sveitina skipuðu Guðbjörg Jóna, Björg, Ingibjörg Sigurðardóttir og Dóra Fríða Orradóttir.

Sæmundur Ólafsson sigraði með yfirburðum í 800m.

Andrea Kolbeinsdóttir hélt uppteknum hætti og hljóp fína tíma í 1500m og 3000m, og setti nýtt mótsmet í 3000m, 9:53,47 mín.

Í langstökkinu stökk Hildigunnur Þórarinsdóttir lengst 6,02 m en það var mikið sentimetrastíð en aðeins 3 cm skildu að 1. og 2. Sætið, Hildigunnur var síðan í 2. Sæti í þrístökki.

ÍR hefur þá sigrað stigakeppni fullorðinna og í flokk 15-22 auk þess sem 11-14 ára stóðu sig vel um liðna helgi. Þetta er frábær árangur sem eflir deildina enn frekar. Næsta verkefni er Stórmót ÍR sem fram fer 20.-21. Mars og verður efalaust mikið um góðan árangur þar því keppnisfólk er í sínu besta formi þessa dagana enda keppnistímabilið komið vel af stað.

 

X