ÍR-ingar Bikarmeistarar

Lið ÍR bar sigur úr býtum á Bikarkeppni FRÍ 2018

Lið ÍR bar sigur úr býtum í bikarkeppni FRÍ sem haldin var í Borgarnesi í gær. ÍR-ingar sem voru ríkjandi bikarmeistarar vörðu titilinn eftir spennandi keppni í heildarstigakeppninni, þar sem A-lið ÍR hlaut 116 stig samanlagt, þremur stigum meira en A-lið FH sem hafnaði í öðru sæti.  Erfiðar aðstæður settu svip sinn á mótið en nokkuð vindasamt var á mótssvæðinu, auk þess sem fór að rigna þegar nokkuð var liðið á keppnina.

ÍR-ingar tefldu fram A og B liði í kvennaflokki og A-liði í karlaflokki. A-lið kvenna varð í öðru sæti í kvennaflokki með 58 stig, en A-lið FH sigraði með 64 stig. B-lið ÍR kvenna endaði í fimmta stæti með 30 stig. Í karlaflokki sigrðuðu ÍR-ingar örugglega, hlutu 58 stig, níu stigum meira en FH sem var í öðru sæti.

Lið ÍR hlaut samanlagt 14 verðlaun á mótinu og sigraði í tíu af 18 keppnisgreinum. Þá urðu þau í öðru sæti í fjórum greinum og B-liðið varð í þriðja sæti í tveimur greinum. Sannarlega frábær árangur hjá okkar fólki!

Nýbakaður Íslandsmethafi í kringlukasti kvenna, Thelma Lind Kristjánsdóttir, sigraði sína grein örugglega með 49,67 m kasti sem er nokkuð frá hennar besta, en góður árangur m.v. aðstæður. Auður María Óskarsdóttir kastaði fyrir B-liðið og hafnaði í áttunda sæti með kasti upp á 18,57 m. Í 100 m hlaupi bar Tiana Ósk Whitworth sigur úr býtum á tímanum 12,35 sek. Í 400 m hlaupi kom Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fyrst í mark á 55,71 sek og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir, sem hljóp fyrir B-liðið, þriðja á 59,46 sek. Dagbjört hljóp einnig í 100 m hlaupinu þar sem hún varð fjórða á 13,10 sek. Þær Tiana og Guðbjörg skipuðu svo boðhlaupssveitina sem sigraði í 1000 m boðhlaupi kvenna ásamt þeim Helgu Margréti Haraldsdóttur og Hrafnhildi Eir Hermóðsdóttur með töluverðum yfirburðum á tímanum 2:14;54 mín. B-sveitin varð  fjórða á tímanum 2:28,14 mín en hana skipuðu Elma Sól Haraldsdóttir, Fanney Rún Ólafsdóttir og Agnes Kristjánsdóttir auk Dagbjartar. Hildigunnur Þórarinsdóttir hafnaði í öðru sæti í þrístökkskeppninni með stökki upp á 11,85 m og Elma Sól í sjötta sæti fyrir B-liðið með 10,20 m stökki. Í 1500 m hlaupi höfnuðu ÍR-ingar í öðru og þriðja sæti. Ingibjörg Sigurðardóttir, sem hljóp fyrir A-liðið varð önnur á tímanum 5:14,26 og Iðunn Björg Arnaldsdóttir á hæla hennar á 5:14,42 fyrir B-liðið. Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti í spjótkasti og varð þar fjórða með 32,38 m kasti. Yfirþjálfari ÍR-inga, Kristín Birna Ólafsdóttir, stökk 1,65 m í hástökki og hafnaði þar í fimmta sæti, en mjög góður árangur náðist í hástökkskeppninni. Helga Margrét varð fimmta í 100 m grind á tímanum 19,34 sek. Fanney Rún keppti í tveimur greinum fyrir B-liðið, hún kastaði spjóti 27,60 m og hafnaði í sjöunda sæti og í hástökki fór hún 1,42 og varð 7.-8.

Hjá körlunum keppti Guðni Valur Guðnason, sem er betur þekktur sem kringlukastari, í kúluvarpi og sigraði á nýju persónulegu meti, 17,37 m. Þorsteinn Ingvarsson stökk 7,13 m og vann langstökkskeppnina, en Þorsteinn er að koma til baka eftir að hafa átt við meiðsli að stríða. Mark Johnson reimdi á sig stökkskóna á ný og sigraði í stangarstökki með stökki upp á 4,60 m. Í 1500 m hlaupi bar Sæmundur Ólafsson sigur úr býtum á tímanum 4:12,61 mín og Ívar Kristinn Jasonarson sigraði í 400 m hlaupi á 48,51 sek. Í 100 m hlaupi hafnaði Ívar í öðru sæti á 11.20 sek, aðeins 0,01 á eftir Jóhanni Birni Sigurbjörnssoni úr UMSS. Ívar hljóp einnig lokasprettinni æsispennandi 1000 m boðhlaupi sem ÍR-ingar sigruðu á 1:59,69 mín. Aðrir í sveitinni voru þeir Sæmundur, Þorvaldur Tumi Baldursson og Árni Haukur Árnason. Einar Daði Lárusson varð annar í 110 m grind á 15,63. Stefán Árni Hafsteinsson kastaði sleggjunni 41,89 m og hafnaði í fjórða sæti.

 

 

X