EM í Berlín graphic

EM í Berlín

07.08.2018 | höf: María Stefánsdóttir

Evrópumeistaramótið í frjálsíþróttum fer fram í Berlín dagana 6. til 12. ágúst. ÍR á tvo af fjórum keppendum Íslands, þau Anítu Hinriksdóttur og Guðna Val Guðnason, sem bæði kepptu í sínum greinum í morgun.

Aníta hljóp í undanrásum 800 m hlaupsins og var þar í fjórða og síðasta riðli. Aníta hafnaði í fimmta sæti í riðlinum á tímanum 2:02,15 mín sem dugði henni inn í undanúrslitin.  Alls komust 16 keppendur inn áfram, þrjár fyrstu úr hverjum riðli og þær fjórar sem eiga bestu tímana þar á eftir. Undanúrslitahlaupin verða annað kvöld og fer fyrri riðillinn af stað kl. 17:55 að íslenskum tíma.

Guðni Valur náði því miður ekki inn í úrslitin í kringlunni en til að tryggja sig  inn þurfti að kasta yfir 64 m eða vera meðal 12 efstu. Guðni var í kastgrúppu B og hafnaði þar í áttunda sæti og í 16. sæti í heildina. Lengsta kast Guðna var 61,36 m en fyrsta kast hans var ógild og þriðja og síðasta kastið 57,39 m.

Aðrir íslenskir keppendur á EM eru þau Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni, sem keppir í undankeppni spjótkastsins 9. ágúst en úrslitin fara fram daginn eftir, og Sindri Hrafn Guðmundsson úr Breiðabliki sem einnig keppir í spjótkasti. Einar Vilhjálmsson þjálfari hjá ÍR er þjálfari Sindra hér heima. Undankeppni í spjótkasti karla fer fram á morgun og úrslitin 9. ágúst.

Nánari upplýsingar um mótið má finna á vefnum https://www.berlin2018.info/en/

X