Nú um helgina voru haldin meistaramót Íslands í fjölþrautum, öldunga og í aldursflokknum 11-14 ára. ÍR-ingar framkvæmdu fyrrnefndu mótin tvö sem fóru fram á Laugrdalsvelli við nokkuð erfiðar aðstæður, þar sem veðurguðirnir reyndust okkur ekki hliðhollir. Þrátt fyrir það náðist ágætur árangur á mótunum og nokkuð var um bætingar hjá keppendum.
Tveir ÍR-ingar mættu til leiks í tugþraut á MÍ í fjölþrautum, þeir Benjamín Jóhann Johnsen og Úlfur Árnason, en við áttum engan keppanda í stúlkna- eða kvennaflokkum. Benjamín, sem nýverið varð annar í tugþraut 20-22 ára á Norðurlandameistaramóti U23, hafnaði í þriðja sæti í karlaflokki með 6353 stig og bætingar í tveimur greinum; kringlukasti þar sem hann kastaði 38,70 m og 400 m hlaupi sem hann hljóp á 51,94 sek. Úlfur varð þriðji í aldursflokki 16-17 ára pilta með 5038 stig.
Á fjórða tug keppenda tóku þátt í MÍ öldunga og áttu ÍR-ingar góðu gengi að fagna, hluti langflest verðlaun eða 26, þar af 18 gull, sjö silfur og eitt brons. Halldór Matthíasson, sem keppir í aldursflokki 65-69 ára karla, hlaut samtals níu verðlaun, þar af gull í 100 m og 200 m hlaupi, kúluvarpi, kringlukasti, sleggjukasti og spjótkasti og silfur í stangarstökki, langstökki og lóðkasti. Fríða Rún Þórðardóttir hlaut fern gullverðlaun í aldursflokki 45-49 ára kvenna, í 400 m, 800 m, 1500 m og 3000 m hlaupum. Í aldursflokki 80-84 ára hlaut Jón H. Magnússon gull í sleggjukasti, spjótkasti og lóðkasti. Helgi Hólm hlaut tvenn gullverðlaun í aldursflokki 75-79 ára, í hástökki og lóðkasti. Hafsteinn Óskarsson, Valur Þór Kristjánsson og Þórólfur Ingi Þórsson hluti sín gullverðlaunin hvor, Hafsteinn í 200 m hlaupi 55-59 ára, Valur í 3000 m hlaupi 35-39 ára og Þórólfur í sömu grein í aldursflokki 40-44 ára. Elías Rúnar Sveinsson hlaut fern silfurverðulaun í aldursflokki 65-69 ára, í hástökki, kúluvarpi, kringlukasti og sleggjukasti, auk bronsverðlauna í lóðkasti.
MÍ 11-14 ára var haldið á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum, í töluvert betra veðri en sunnan heiða og gekk mótið með miklum ágætum og margar persónulegar bætingar litu dagsins ljós. Þrjú mótsmet voru sett, öll í 11 ára flokki, í hástökki þar sem Stephanie Ósk Ingvarsdóttir úr Kötlu stökk 1,43 m, í 600 m þar sem FH-ingurinn Jónína Linnet hljóp á 1:56,76 mín og í langstökki þar sem Thomas Ari Arnarsson úr Ármanni stökk 4,68 m.
ÍR-ingar sendu 20 keppendur til leiks og hafnaði ÍR hafnaði í áttunda sæti í heildarstigakeppninni með alls 163 stig. Í 13 ára aldursflokknum hlutu 4 x 100 m boðhlaupssveitirnar bæði hjá piltum og stúlkum silfur. Tími piltanna var 53,60 sek en stúlkanna 58,22 sek. Í 600 m 14 ára pilta varð Magnús Örn Brynjarsson annar á 1:41,49 mín sem er bæting hjá honum og Embla Sól Óttarsdóttir hafnaði í öðru sæti í 600 m 13 ára stúlkna á nýju persónulegu meti 2:02,29 mín. Helga Lilja Eyþórsdóttir varð önnur í kúluvarpi 11 ára stúlkna með 6,73 m kasti, sem einnig er bæting hjá henni. Gunnlaugur Jón Briem sem keppir í flokki 13 ára náði þriðja sæti í 100 m á 13,89 sek. Brynja Hönn Stefánsdóttir hlaut bronsverðlaun í 80 m grindahlaupi 14 ára stúlkna á tímanum 13,64 sek sem er bæting og Dóra Fríða Orradóttir brons í þrístökki 13 ára stúlkna með stökki upp á 9,58 m sem er hennar besti árangur í greininni.