Fjórir ÍR-ingar kepptu í tugþraut á MÍ í fjölþrautum sem fór fram á Kópavogsvelli nú um helgina. Þrátt fyrir nokkuð erfiðar aðstæður var mikið um bætingar í einstökum greinum og bættu þeir Kolbeinn Tómas Jónsson og Úlfur Árnason, sem keppa í aldursflokki 16-17 ára drengja, heildarárangur sinn í þraut.
Í flokki 20 ára og eldri varð Benjamín Jóhann Johnsen í þriðja sæti með 5637 stig. Árangur hans í einstökum greinum var eftirfarandi: 100 m: 12,15 sek (PB), langstökk: 5,91 m, kúla: 10,40 m, hástökk: 1,73 m, 400 m: 54,18 sek (PB), 110 m grind: 17,05 sek (PB), kringla: 32,16 m, stöng: 3,31 m, spjót: 50,74 m (PB) og 1500 m: 4:57,10 mín.
Jón Gunnar Björnsson, sem einnig keppti í flokki 20 ára og eldri, lenti í vandræðum í stönginni og lauk ekki keppni en hafði átt góðu gengi að fagna fram að því og bætt sig í fjórum greinum, langstökki (6,42 m), kúlu (12,08 m), 400 m (54,12 sek), og 110 m grind (16,37 sek).
Kolbeinn Tómas varð Íslandsmeistari í tugþraut 16-17 ára og bætti árangur sinn um tæp 200 stig, en best átti hann 5975 stig frá Norðurlandameistaramóti unglinga fyrr í sumar. Árangur hans í einstökum greinum var eftirfarandi: 100 m: 11,58 sek, langstökk: 6,08 m, kúla: 13,10 m, hástökk: 1,79 m, 400 m: 52,89 sek, 110 m grind: 15,56 sek (PB), kringla: 35,70 m, stöng: 3,21 m (PB), spjót 45,24 (PB) og 1500: 4:59,72 (PB).
Úlfur hafnaði í þriðja sæti í þessum aldursflokki með 4476 stig og bætti einnig árangur sinn, þrátt fyrir að fá engin stig úr einni greininni. Árangur hans var eftirfarandi: 100: 12,61 sek (PB), langstökk: 5,51 m, kúla: 9,99 m, hástökk: 1,64 m, 400: 58,55, 110 m grind: 18,19 sek, kringla: 29,32 m, stöng: NH, spjót: 43,55 m og 1500: 4:59,84 (PB).