ÍR sigurvegarar MÍ 15-22 ára graphic

ÍR sigurvegarar MÍ 15-22 ára

27.08.2017 | höf: María Stefánsdóttir

Seinni degi MÍ 15-22 ára er nú lokið. Lið ÍR sigraði heildarstigakeppnina með yfirburðum og hlaut 469,5 stig, HSK/Selfoss 359,5 stig og Breiðablik 318,5. Þetta er 14. árið í röð sem ÍR-ingar standa uppi sem sigurvegari á mótinu.

ÍR varð einnig stigameistari í flokki 20-22 ára og 16-17 ára pilta og í flokki 16-17 ára stúlkna. ÍR hlaut 15 Íslandsmeistaratitla í dag, og í heildina 30 gull, 23 silfur og 18 brons.

Þeir sem unnu til gullverðlauna í dag voru Dagbjartur Kristinsson í 3000m í flokki 16-17 ára, Kolbeinn Tómas Jónsson í 110m grindahlaupi í sama flokki, Andri Már Hannesson í 3000m í flokki 18-19 ára, Sæmundur Ólafsson í 800m í flokki 20-22 ára. Jón Gunnar Jónsson varð Íslandsmeistari í 110m grindahaupi 20-22 ára og í langstökki og Benjamín Jóhann Jónsson í stangarstökki 20-22 ára og spjótkasti.

Iðunn Björg Arnaldsdóttir sigraði í 800m í 15-16 ára stúlkna, og Elísabet Rut Rúnarsdóttir í sleggjukasti 15 ár stúlkna þar sem hún setti mótsmet og aldursflokkamet. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir setti mótsmet í 200m um leið og hún varð Íslandsmeistari en vindur var aðeins of mikill, hún sigraði einnig í langstökki. Helga Margrét Haraldsdóttir sigraði í 100m grindahlaupi 15-16 ára stúlkna. Stella Kristjánsdóttir bætti sig í stangarstökki þar sem hún vann gullverðlaun. Rut Tryggvadóttir, sem keppir í 16-17 ára flokki, sigraði í sleggjukasti og setti mótsmet og aldursflokkamet 17 ára stúlkna.

Frábær árangur hjá liðinu í heild. ÍR-ingar stóðu sig einnig frábærlega við að láta mótið ganga vel fyrir sig þrátt fyrir erfiðar veðurfarslegar aðstæður.

Fríða Rún tók saman

X