Hlynur Andrésson varð í gærkvöldið í 6. sæti í 3000m hindrunarhlaupi á Penn Relays í Bandaríkjunum. Hlynur hljóp á tímanum 8:59,83 mín og bætti sig um heilar 12 sekúndur. Þessi tími Hlyns er 5. besti tími Íslendings frá upphafi og besti tími Íslendings síðan árið 2003 en þá hljóp
Sveinn Margeirsson UMSS á tímanum 8:46,20 mín sem er Íslandsmetið í greininni. Þeir Jón Diðriksson, Ágúst Ásgeirsson og Kristleifur Guðbjörnsson eiga einnig betri tíma en Hlynur en hann mun efalaust gera atlögu að þeim tímum en þessi kappar voru upp á sitt besta í 3000m hlaupi á árunum 1961 – 1981 löngu áður en Hlynur fæddist. Það er gaman fyrir Ísland að eiga á ný frambærilegan keppanda í 3000m hindrunarhlaupi. Til hamingju með árangurinn Hlynur.
– Fríða Rún Þórðardóttir tók saman