Íþróttafélag Reykjavíkur

Nýr samningur ÍR og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íþróttamannvirkja

Í dag fimmtudaginn 26. janúar 2017 samþykkti borgarráð Reykjavíkurborgar á fundi sínum að heimila borgarstjóra Degi B. Eggertssyni að undirrita samning fyrir hönd borgarinnar við ÍR um uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja á tímabilinu 2017-2023 og rekstur nýrra og eldri mannvirkja.

Samstarfsnefnd Reykjavíkurborgar og ÍR var sett á stofn í september 2016 sem síðan hefur unnið að tillögugerð um uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir ÍR og Breiðholtið í heild og rekstur þeirra.  Niðurstöður nefndarinnar liggja nú fyrir í ofangreindum samningi.  Samingurinn verður undirritaður með fyrirvara um samþykki auka-aðalfundar ÍR sem verður haldinn laugardaginn 4. febrúar n.k. Í kjölfarið verður samningurinn kynntur á opnum íbúafundi í Breiðholti.

Megininnihald samningsins er eftirtalið:

1.ÍR tekur að sér rekstur íþróttahúsanna við Austurberg, Seljaskóla og Breiðholtsskóla til 20 ára. Skipuð verði 3 manna rekstrarnefnd fyrir íþróttahúsin. Úttekt verður gerð á ástandi húsanna við upphaf samnings og viðhalds- og endurbótaáætlun gerð.
2. Gervigrasvöllur endurnýjaður sumar 2017. (ÍR-svæði)
3. Frjálsíþróttavöllur og vallarhús tilbúið til notkunar sumar 2018. (ÍR-svæði)
4. Knattspyrnuhúss yfir hálfan knattspyrnuvöll tilbúið í lok árs 2018. (ÍR-svæði)
5. Íþróttahús með parketgólfi og áhorfendasvæðum tilbúið 2020.(ÍR-svæði)
6. Viðbygging/Tengibygging á milli ÍR-heimilis og íþróttahúss með búningsklefum og félagsaðstöðu tilbúin 2020. (ÍR-svæði)
7. Fimleikahús með aðstöðu fyrir bardagaíþróttir tilbúið 2023. (Efra Breiðholt eða ÍR-svæði)
8. Gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg eigi mannvirkin sem byggð verða en ÍR sjái um rekstur þeirra allra gegn framlagi frá Reykjavíkurborg.
9. Skipan starfshóps ÍTR, ÍBR, ÍR og annarra íþróttafélaga í Breiðholti sem skipuleggja á eflingu íþróttasstarfs í hverfinu.
10. Viðeigandi breytingar á deiliskipulagi ÍR-svæðisins verði gerðar.

Aðalstjórn ÍR hefur samþykkt einróma að veita Ingigerði Guðmundsdóttur formanni ÍR umboð til að undirrita samninginn.  Á kynningarfundi aðalstjórnar 11. janúar sl. með formönnum allra deilda og fyrrverandi formönnum aðalstjórnar kom fram almenn ánægja með innihald samningsins og einhugur meðal stjórnenda félagsins um framgang málsins.

Með samningnum verða skapaðar aðstæður til að efla íþróttastarfið verulega hjá ÍR og heilsueflandi valkosti í Breiðholtinu, öllum börnum, unglingum, afreksfólki, almenningi og eldri borgurum til hagsbóta.

 

X