Látin er eftir erfið veikindi ein skærasta frjálsíþróttastjarna Íslands á áttunda áratugnum, Ingunn Einarsdóttir. Ingunn var fædd árið 1955 og því 61 árs er hún lést í Hollandi þar sem hún var búsett síðustu árin.
Fyrstu keppni hóf Ingunn árið 1968, aðeins 13 ára gömul og á fermingarárinu 1969 sló hún í gegn, setti alls 10 Íslandsmet. Fjögur í grindahlaupum, tvö í 400 metra hlaupi, tvö í 800 metrum, eitt í 200 m hlaupi og það tíunda í fimmtarþraut.
Bjó hún á þessum tíma á æskustöðvunum á Akureyri en fluttist til Reykjavíkur og gekk í ÍR árið 1972, aðeins 17 ára. Var hún atkvæðamikil á frjálsíþróttavellinum og var í mörg ár einn af burðarásum sterkrar frjálsíþróttasveitar ÍR sem vann Bikarkeppni FRÍ þetta ár í fyrsta sinn og síðan 16 ár í röð. Munaði mikið um Ingunni fyrir ÍR.
Þá var hún lykilmanneskja í landsliðinu á áttunda áratugnum og til dæmis afar sigursæl í Kalott-keppninni.
Áfram hélt metum að rigna frá Ingunni og sló hún t.d. alls átta met sumarið 1974. Lengi vel átti hún Íslandsmetin í 100, 200, 400 metra hlaupum, 100 metra grindahlaupi og fimmtarþraut, svo og bæði félags- og landsmet í boðhlaupum.
Eins og vill stundum verða hjá íþróttamönnum sem mikið leggja á sig þurfti Ingunn öðru hverju að taka sér frí frá keppni vegna meiðsla. Keppnisskapið mikla dreif hana áfram og alltaf birtist hún aftur á hlaupabrautinni. Ingunn var sterk á innanhússmótum veturinn 1977-78. Varð þrefaldur meistari og setti met í langstökki, 5,80 metra, sem var lengra en Íslandsmetið utanhúss.
Ingunn var valin til keppni á EM innanhúss á Ítalíu 1978. Eftir mótið fór hún í æfingabúðir þar í landi ásamt fleirum til að undirbúa sig sem best fyrir utanhússtímabilið. Það var því mikið áfall þegar Ingunn fann þar fyrir meiðslum sem reyndust vera brjósklos í baki. Varð hún að gangast undir uppskurð um sumarið, en með því lauk eiginlega glæsilegum keppnisferli hennar.
Eins og oft vill verða mun það hafa verið algjör tilviljun að Ingunn fór í frjálsíþróttir. Sagan segir, að Hreiðar Jónsson vallarvörður á Akureyri hafi hitti föður hennar á götu og spurt hvort hann ætti ekki strák sem vildi æfa hlaup. Nei, hann átti ekki strák lausan í slíkt, en stelpu sagðist hann eiga. Það varð úr að Ingunn mætti til æfinga og árangurinn lét ekki á sér standa.
Ingunn Einarsdóttir var afar góður liðsmaður og dreif fólk áfram og með sér með sínum óbilandi áhuga og keppnisskapi. Hvatti hún aðra til dáða, jafnt félagsmenn sem aðra og spruttu margar öflugar frjálsíþróttakonur upp úr kjölsogi hennar. ÍR-ingar minnast góðs vinar og félaga og votta aðstandendum hennar hluttekningu.