Íþróttafélag Reykjavíkur

Hlynur með Íslandsmet í 5000m hlaupi

Hlynur Andrésson

Hlynur Andrésson ÍR keppti í 5000m hlaupi á Stanford Invitational í Kaliforníu í dag 1. apríl. Hlaupið var frábærlega útfært hjá honum og lauk með gríðarlegum endaspretti þar sem þrír hlaupara börðust um sigurinn og komu í mark með 27/100sek millibili sem er hreint ótrúlegt í 5000m hlaupi.

Hlynur kom þriðji í mark af 23 hlaupurum sem er frábært á svo sterku móti. Tími hans, og nýtt Íslandsmet, var 14:00,83 mín en fyrra met átti Kári Steinn Karlsson, 14:01.99 mín en persónuleg bætingin hjá Hlyni var 10 sek.

Það verður gríðarlega gaman fyrir Hlyn að komast undir 14 mínúturnar sem er töluverður múr í þessari vegalengd og ætti að vera stutt í þann áfanga. Til hamingju Hlynur, góðar kveðjur frá Íslandi.

-Fríða Rún tók saman

X