Íþróttafélag Reykjavíkur

Arnar Pétursson deilir reynslu sinni af Hamborgarmaraþoninu

Arnar Pétursson

Arnar Pétursson í ÍR hljóp á dögunum frábært maraþonhlaup í Hamborg, og varð með því þriðji besti maraþonhlaupari sem Ísland hefur átt. Arnar er aðeins 27 ára gamall og á því framtíðina fyrir sér í þessari grein sem og öðrum langhlaupagreinum. Arnar hefur verið iðinn við að segja frá upplifun sinni þegar hann tekur þátt í hlaupum bæði hér heima sem og erlendis. Einnig hefur hann verið mjög hvetjandi við þá sem stunda hlaup sér til heilsubótar og gamans og fór á dögunum hringinn til hlaupahópanna á stór Reykjavíkur svæðinu og gaf þarf góð ráð og „inspiration“. Var almennt mikil ánægja með heimsókn Arnars og fengu bæði byrjendur og keppnishlauparar góð ráð og hvatningu.

Hér fer stuttur pistill frá Arnari þar sem hann deilir með okkur upplifun sinn í Hamborgarmaraþoninu.

Ég er virkilega sáttur með hlaupið í heild sinni. Allar æfingar hafa miðað við að hlaupa á 2:20:00 klst en ég vildi ekki taka neina áhættu í hlaupinu þar sem aðalmarkmiðið var að sækja góða bætingu og safna keppnisreynslu. Ég undirbjó mig eins og hef gert fyrir erfiðar æfingar og notast alltaf við sömu rútínuna, tvær brauðsneiðar í morgunmat og Lýsis Sportþrenna og Liðamín.

Ég lagði upp með að fara rólega af stað og sjá hvort ég myndi ekki lenda í einhverri góðri grúppu sem ég gæti þá hlaupið með. Aðstæður voru fínar en það var heitt, um 14-20°C, svo til heiðskírt og lítill vindur. Því miður lenti ég í því að vera í smá einskins manns landi allt hlaupið og var einn allan tímann, ég náði samt að pikka upp nokkra hlaupara á seinni hlutanum sem var mjög gott andlega. Þar sem ég var einn og planið var bara að ná í góða bætingu fór ég þetta bara eftir tilfinningunni og passaði mig að eiga nóg eftir til að klára hlaupið. Mér leið allan tímann mjög vel og átti helling inni í lokin, ég hefði eflaust getað farið töluvert hraðar en er svakalega ánægður með bætinguna og veit að næsta bæting verður auðveld.
Næsta markmið er að færa sig ofar á afrekalistann og gera atlögu að tímunum hjá Sigga P og Kára Steini. Ég vissi að það var ólíklega að fara að gerast í hlaupinu í Hamborg og nálgunin á hlaupinu var eftir því. Núna á ég þriðja besta tíma Íslendings í maraþoni sem var markmiðið fyrir þetta tímabil, þannig að ég gæti ekki verið sáttari. Í rauninni var ég það ánægður með þetta að ég tók mér alveg gott korter í að brynna músum af gleði eftir hlaupið, ógleymanlegt móment.
Í sumar verð ég duglegur að mæta í götuhlaupin enda er ekkert skemmtilegra en að hitta hlaupara landsins og hlaupa með þeim. Keppni í götuhlaupi eru alltaf hápunktur vikunnar hjá mér og gera sumarið svo skemmtilegt. Ég efa að Íslandsmeistaratitlarnir verði jafn margir og í fyrra enda var það eitt það erfiðasta sem ég hef gert að taka þátt í svo mörgum hlaupum í svo mörgum mismunandi vegalengdum.
Annars er alltaf nóg framundan en núna ætla ég að njóta þess að taka góða hvíld og leyfa líkamanum að slaka aðeins á. Eftir hvíldina mun ég svo setjast niður og skrifa upp komandi markmið. Þangað til þá bara hlakka ég til að sjá sem flesta í götuhlaupunum í sumar og ef þið viljið fylgjast með mér þá ef ég virkur á instagram undir nafninu @arnarpetur.

X