Thelma Lind Kristjánsdóttir sigraði í hollensku bikarkeppninni (Dutch Team Championships) í gær þegar hún bætti sig og setti aldursflokkamet í flokki stúlkna 20-22 ára. Thelma kastaði 51,83m og bætti þar með met Ragnheiðar Önnu Þórsdóttur FH frá árinu 2010. Eina íslenska konan sem hefur kastað lengra er Íslandsmethafinn í kvennaflokki, hún Guðrún Ingólfsdóttir sem kastaði 53,86m árið 1982. Thelma Lind keppti einnig í kúluvarpi á mótinu en hún kastaði kúlunni 14,22 metra á sama móti.
Guðni Valur Guðnason sigraði einnig mótið í karlaflokki og kastaði kringlunni 59,36m sem er góð byrjun á sumrinu hjá honum.
Thelma Lind og Guðni Valur verða erlendis í vikunni og munu keppa á fleiri mótum áður en þau halda heim. Við óskum Thelmu Lind og Guðna Val til hamingju með árangurinn í gær og óskum þeim góðs gengis á næstu dögum.
Thelma Lind og Guðni Valur eru ekki einu ÍR-ingarnir sem voru að standa sig vel um helgina en Hlynur Andrésson kom sá og sigraði á Mid-American Conference í Bandaríkjunum þar sem hann sigraði þrefalt, í 10.000m, 5000m og 3000m hindrunarhlaupi sem telst einstakur árangur að ná. Tímarnir sem Hlynur hjóp á voru 10.000m: 30:39,87; 5000m: 14:36,67, 3000m hindrun: 8:58,15
Þar að auki var Hlynur valinn dýrmætasti íþróttamaðurinn (Most valuable performer) á mótinu og leiddi liðið sitt til sigurs í mótinu.
Alveg hreint frábær árangur hjá honum á síðasta ári hans í bandaríska háskólakerfinu. Næst keppir Hlynur á NCAA regionals. Við óskum Hlyni innilega til hamingju með árangurinn um helgina og óskum honum góðs gengis á Regionals.