Sunnudaginn 5. nóvember fer Norðurlandameistaramótið í Víðavangshlaupum fram í Laugardalnum. ÍR á að sjálfsögðu fulltrúa í íslenska liðinu en þau Helga Lilja Maack, Illugi Gunnarsson og Hilmar Ingi Bernharðsson hafa öll verið valin til keppni í unglingaflokki U20. Þau eru reyndar öll aðeins á 15. og 16. aldursári en skipa þó stolt íslensku þriggja manna sveitina í stúlkna og drengjaflokki.
Í fullorðinsflokki er Andrea Kolbeinsdóttir eini ÍR-ingurinn í þetta sinn en 5 konur og 5 karlar hafa verið valin til keppninnar fyrir Íslands hönd. Sjá val hér https://fri.is/landslidsval-fyrir-nm-i-vidavangshlaupum-2023/
Keppnin fer fram í kringum þvottalaugarnar í Laugardalnum, svæðið þar í kring með rás- og endamark á tjaldstæðinu en hægt er að leggja bílum við Laugardalshöll eða Skautahöllina.
Við hjá Frjálsíþróttadeild ÍR hvetjum ÍR-inga til að klæða sig vel og koma og hvetja keppendur í þessari skemmtilegu og krefjandi keppni sem “rúllar” milli norðurlandanna ár frá ári.