Arnar Freyr ráðinn yfirþjálfari handknattleiksdeildar ÍR!

Arnar Freyr ráðinn yfirþjálfari

Handknattleiksdeild ÍR býður Arnar Freyr Guðmundsson velkominn til starfa sem yfirþjálfari yngri flokka deildarinnar. Er ráðningin skref til framtíðar sem styður við uppbyggingu og stefnu deildarinnar.

Mun Arnar hafa yfirumsjón með faglegu starfi yngri flokka handknattleiksdeildar. Mun hann leiða stefnumótunarstarf varðandi þjálfun yngri flokka og skipuleggja hvert tímabil m.t.t. þjálfunarstefnu deildarinnar og veita þjálfurum ráðgjöf og aðhald varðandi þjálfun. Hann sér til þess að ársáætlanir séu gerðar fyrir alla flokka og að þeim sé fylgt eftir. Hann stuðlar einnig að auknu upplýsingaflæði milli þjálfara og forráðamanna og þjálfara og stjórnar BUR.

Þjálfarastarfið er eitt mikilvægasta starfið sem unnið er innan handknattleiksdeildarinnar. Starfið krefst þess að hver þjálfari búi yfir faglegri þekkingu á líkamlegum, andlegum og félagslegum þörfum og getu þess aldurshóps sem starfað er með hverju sinni.  Þjálfarar handknattleiksdeildar gegna lykilhlutverki í því að skapa uppbyggilegan og heilbrigðan félagsanda og stuðla jafnframt að því að framkoma iðkenda sé félaginu ávallt til sóma sem og að sjá til þess að hver iðkandi fái verkefni við sitt hæfi þannig að allir njóti sín sem best.

Stjórn handknattleiksdeildar ÍR gerir sér vel grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem fylgir þessu starfi og fagnar deildin því að hafa náð samningum við Arnar sem mun án alls efa sinna starfinu með miklum sóma. Velkominn Arnar!

X