Það var við ramman reip að draga hjá ÍR-ingum í Bikarkeppni FRÍ þetta árið. Alls voru átta lið sem öttu kappi, þar af mættu ÍR og FH með tvö lið til keppni. ÍR mætti sterkt til leiks eins og FH-ingar en lið ÍR þurfti þó að sætta sig við annað sætið í heildarstigkeppninni eftir mikla baráttu um titilinn. Það var töluvert um bætingar og fínan árangur hjá okkar fólki og að sjálfsögðu náðu nokkrir ÍR-ingar bikarmeistaratitli. Andrea Torfadóttir, sem nýverið gekk til liðs við ÍR frá FH, gaf tóninn fyrir okkur með yfirburða sigri í 60m og bætingu á sínum besta tíma, 7,65 sek. Ingibjörg Siguðardóttir hélt áfram að bæta sig í 400m, hljóp á 57,41 sek og varð önnur. Aníta Hinriksdóttir kom til baka í sitt fyrsta keppnishlaup um hríð eftir erfið meiðsli og hljóp flott 1500m hlaup, 4:48.22 mín. Stella Dögg Eiríksdóttir bætti sig í stangarstökki, stökk 3,43 m og varð önnur. Konurnar kláruðu svo sinn keppnisdag með frábæru 4 x 200m boðhlaupi, þrátt fyrir að vera án Guðbjargar Jónu og Tiönu.
Sæmundur Ólafsson hafði í nógu að snúast en hann sigraði í 1500m og hljóp svo 400m fyrir A liðið. Guðni Valur Guðnason sigraði í kúluvarpi og var þar tvöfaldur ÍR sigur en Kristján Viktor Kristinsson varð annar og bætti sig í 15.79m. Einar Daði Lárusson, stökk hástökk fyrir A liðið og hljóp 60m grindahlaup og hafnaði í öðru sæti í báðum greinum, Einar Daði skilar alltaf sínu að öllum öðrum ólöstuðum. Birgir Jóhannes Jónsson varð þriðji í þrístökkinu og bætti sinn besta árangur innanhúss.
Stigakeppninni lauk þannig að FH bar sigur úr býtum með 107 stig, ÍR var aðeins 5 stigum á eftir með 102 stig. ÍR B varð í 6. sæti næst á undan FH B. Í kvennakeppninni sigraði FH ÍR með 2 stiga mun og hjá körlunum sigur FH yfir ÍR, 3 stig.
ÍR ingar geta gengið sáttir frá borði þrátt fyrir sigur FH þar sem allir lögðu sig 100% fram og nokkuð vantaði upp á að allt okkar besta fólk gæti tekið þátt vegna meiðsla, skóla og annarra verkefna erlendis.
Til hamingju ÍR ingar