Birtur hefur listi yfir þá 13 íþróttamenn sem náð hafa tilskyldum lágmörkum í Stórmótahóp FRÍ 15-22 ára 2019-2020. Frjálsíþróttadeild ÍR getur stært sig af því að af þessum 13 frábæru íþróttamönnum koma 8 frá okkur en það eru:
Andrea Kolbeinsdóttir (1999) – keppnisgreinar 3000m, 5000m, 3000m hindrun
Andrea æfir og keppir í Bandaríkjunum þar sem hún er í námi í læknisfræði. Síðastliðið sumar bætti hún eigið Íslandsmet í 3000 metra hindrunarhlaupi á HM U20 í Finnlandi þar sem hún kom í mark á tímanum 10:21,26 mínútum. Sá tími dugar henni til þess að komast á EM U23 sem fer fram næsta sumar. Þess má til gamans geta að síðasta sumar hljóp hún einnig talsvert undir lágmarkstíma fyrir EM U23 þegar hún vann 10.000 metra hlaup á Vormóti ÍR en þar hljóp hún á 35:25,38 mínútum en lágmarkið fyrir EM er 36:15,00 mínútur. Með þessum tíma setti hún aldursflokkamet í flokki 20-22 ára og aðeins Martha Ernstsdóttir og Ragnheiður Ólafsdóttir hafa hlaupið vegalengdina hraðar af íslenskum konum.
Dagbjartur Daði Jónsson (1997) – keppnisgrein spjótkast
Eftir nokkur meiðsli náði Dagbjartur sér á strik síðastliðið sumar og náði góðum bætingum. Hann bætti persónulegan árangur sinn um fjóra metra þegar hann kastaði lengst á Javelin festival í Jena með kasti upp á 76,19 metra. Með því kasti náði hann lágmarki á EM U23 næsta sumar.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir (2002) – keppnisgrein sleggjukast
Síðasta keppnistímabil var Elísabetu nokkuð erfitt enda var hún meiðslum hrjáð. Þrátt fyrir það gerði hún sér lítið fyrir og setti Íslandsmet á kastmóti UMSB þegar hún kastaði 62,16m, þá 16 ára gömul! Elísabet keppti á EM U18 ára síðasta sumar og á Ólympíuleikum ungmenna sem fóru fram í Argentínu í október á síðasta ári. Hún hefur þegar náð lágmarki á EM U20.
Erna Sóley Gunnarsdóttir (2000) – keppnisgrein kúluvarp
Erna Sóley er við háskólanám í Bandaríkjunum og hefur hún tekið stórstígum framförum undanfarin misseri. Hún gerði sér lítið fyrir og náði bronsi á EM U20 síðasta sumar í Svíþjóð. Þá varð hún einnig Norðurlandameistari U19. Hún á á stúlknametið í flokki 18-19 ára í kúluvarpi og er það 14,98 metrar. Erna hefur nú þegar náð lágmarki á EM U20 sem fer fram næsta sumar.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (2001) – keppnisgreinar 60m, 100m, 200m og 400m
Nú á dögunum var Guðbjörg Jóna útnefnd frjálsíþróttakona ársins, íþróttakona Reykjavíkur og varð ein af tíu efstu í kjöri Íþróttamanns ársins 2019. Á þessu ári jafnaði hún Íslandsmet innanhúss í 60m hlaupi og bætti Íslandsmetin í 100m og 200m utanhúss. Næsta stórmót Guðbjargar er EM U20 sem fer fram sumarið 2020 þar sem hún hefur náð lágmörkum í 100, 200 og 400 metra hlaupi.
Helga Margrét Haraldsdóttir (2001) – keppnisgrein sjöþraut
Helga Margrét er mjög fjölhæf frjálsíþróttakona en hún komst inn í stórmótahópinn með góðum árangri í kúluvarpi. Hún keppti m.a. í þeirri grein síðasta sumar á EM U18. Hún hefur þó átt við erfið meiðsli að stríða að undanförnu en hún er mjög einbeitt að ná sér á strik og komast sem fyrst á æfingar og út á keppnisvöllinn.
Tiana Ósk Whitworth (2001) – keppnisgreinar 60m, 100m og 200m
Eins og Andrea og Erna Sóley er Tiana nú í háskólanámi í Bandaríkjunum. Hún jafnaði nú á dögunum Íslandsmetið í 60 metra hlaupi utanhúss, sbr. umfjöllun hér. Tiana keppti á HM U20 síðasta sumar og hefur náð lágmarki á EM U20 í 100 og 200 metra hlaupi sem fer fram næsta sumar.
Thelma Lind Kristjánsdóttir (1997) – keppnisgrein kringlukast
Thelma Lind er fjórði ÍR-ingurinn í þessum hópi sem er við nám í Bandaríkjunum. 36 ára Íslandsmet Guðrúnar Ingólfsdóttur í kringlukasti varð fyrir barðinu á Thelmu síðastliðið sumar þegar hún kastaði 54,69 metra á kastmóti UMSB, en með því kasti bætti hún sinn besta árangur um tæpa tvo metra. Með því kasti náði hún lágmarki á EM U23 sem fer fram næsta sumar.
Nánari upplýsingar um Stórmótahópinn er að finna hér.
Frjálsíþróttasamband Íslands birti einnig nýlega nýjan úrvalshóp unglinga 15-19 ára. Þar eigum við ÍR-ingar 7 fulltrúa en þeir eru:
Bergur Sigurlinni Sigurðsson – 100m og 300m grindahlaup
Elísabet Rut Rúnarsdóttir – sleggjukast
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 100m, 200m og 400m
Ingibjörg Sigurðardóttir – 200m, 400m og 400m grindahlaup
Ingvar Freyr Snorrason – kringlukast
Katharina Ósk Emilsdóttir – kúluvarp
Magnús Örn Brynjarsson – 300m grindahlaup
Nánari upplýsingar er að finna hér.
Ofangreindum einstaklingum eru færðar innilegar hamingjuóskir.
Frjálsíþróttadeild ÍR vill að lokum færa unglinganefnd FRÍ kærar þakkir fyrir þeirra vinnu undanfarin misseri.