ÍR-ingar atkvæðamiklir í landsliðinu á Evrópubikar í frjálsum

Aníta Hinriksdóttir og Hlynur Andrésson voru meðal ÍR-inga í landsliði Íslands á Evrópubikar 2019

Íslenska landsliðið í frjálsíþróttum sigraði þriðju deildina í Evrópukeppni landsliða sem fram fór nú um helgina í Skopje, Norður Makedóníu og verður því í 2. deild á næsta ári. ÍR átti fjölda keppenda í landsliðinu, eða 12 íþróttamenn af 34 og var árangur þeirra eftirfarandi.

Hulda Þorsteinsdóttir stóð sig frábærlega í stangarstökkinu, stökk 3,60m og sigraði með tæplega 40 cm hærra stökki en sú sem varð önnur. Það gerir sigur hennar sætari að hún stökk á lánsstöngum þar sem hennar stangir skiluðu sér ekki. Líklega hefði hún stokkið hærra á sínum eigin stöngum en hún hefur verið að stökkva yfir 3,70m á mótum undanfarið og yfir 4 m innanhúss. Í stangarstökki karla varð Benjamín Jóhann Johnsen í þriðja sæti stökk 4,51m sem er hans besti árangur.

Í 400 m grindarhlaupi hlaut Ívar Kristinn Jasonarson silfurverðlaun þegar hann kom í mark á 52,56 sek sem er nálægt hans besta á árinu en hann á best 51.78 sek síðan í fyrra.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð önnur í 100 m á fyrri degi á 11.58 sek, aðeins 2/100 frá sínu besta og sigraði svo glæsilega í 200 m á seinni degi á 23.79 sek en hún á best þar 23.56 sek.

Aníta Hinriksdóttir hljóp bæði 800 m og 1500 m og hlaut silfurverðlaun í báðum hlaupunum, 800 m hljóp hún á 2:06,16 mín sem er hennar ársbesta og 1500m á 4:36.33 mín. Þetta er nokkuð frá hennar besta í 1500 en mjög heitt var á keppnisstað og erfiðar aðstæður í þessum vegalengdum og lengri.

Hlynur Andrésson fékk, eins og Aníta, silfur í báðum sínum hlaupum en hann hljóp 1500 m á 3:49,29 mín sem er aðeins 10/100 frá hans besta tíma síðan 2017 og 3000 m á 8:15,18 mín en hann á best 8:26,11 mín.

Andrea Kolbeinsdóttir vann til bronsverðlauna í 3000 m, hljóp á á 9:47,66 mín sem er alveg við hennar besta síðan 2018 þegar hún hljóp á 9:46,93 mín, hún varð síðan 4. í 5000m á 17:21,63 mín

Arnar Pétursson hljóp 5000 m á fyrri degi á 15:25.67 mín sem er alveg við hans besta, en hann á 15.18:40 síðan 2018. Í 3000 m hindrunarhlaupinu á seinni degi varð hann 5. og hljóp á 9:18.59 mín og bætti sig um 3 sek, frábært hjá honum í þessum hita en Arnar fer upp um fjögur sæti á íslenskri afrekaskrá eða upp í 13. sætið með þennan tíma.

Sæmundur Ólafsson fékk gott hlaup, hljóp hann á sínum besta tíma 1:50,47 mín og varð fimmti. Sæmundur stekkur upp um þrettán sæti á íslenskri afrekaskrá eða úr 20. sæti upp í það 7. en Íslandsmetið í greininni er 1:48,83 mín sett árið 1987.

Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir fékk silf­ur í kúlu­varpi er hún kastaði 15,85 m en hún á best 16,13m.

Dag­bjart­ur Daði Jóns­son fékk brons í spjót­kasti er hann kastaði 74,18 metra sem var um 4 m frá hans besta. Hann átti tvö gild köst, eins og flestir keppendur en aðeins fjórir af 10 keppendum áttu þrjú gild köst af fjórum og enginn átti fjögur gild köst.

Bæði 4 x 100m boðhlaupin unnust. Agnes Kristjánsdóttir og Guðbjörg Jóna voru ÍR-ingarnir í sveitinni sem hljóp á glæsilegum tíma 45,81 sek, en Guðbjörg átti frábæran endasprett þar sem hún vann upp gott forskot Serbíu og kom fyrst í mark. Í 4 x 400m boðhlaupi voru Guðbjörg og Agnes aftur á ferðinni en þar fengu stúlkurnar silfur. Í 4 x 400m boðhlaupi karla varð sveitin einnig í öðru sæti og var Ívar Kristinn okkar maður í sveitinni.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

X