Konur í keilu

Í tengslum við komu PWBA kvenna á RIG 2019 bauð ÍR keiludeild upp á fyrirlestur fyrir allar konur í keilu. Megin markmið þess að bjóða upp á þennan fyrirlestur var að gefa konum í keilu kost á að hitta þær stöllur og fræðast um það hvernig atvinnukonur í keilu starfa enda ekki á hverjum degi sem þvílíka keilarar heimsækja okkar land.

Vegna óviðráðanlegra aðstæðna þurfti að færa fyrirlesturinn frá fimmtudegi yfir á föstudag vegna þess að ferðalag Tannya Roumimper hingað til lands riðlaðist hressilega. Það var vegna veðuraðstæðna út í mið-vesturríkjum Bandaríkjanna þar sem hún býr. Hún komst þó á endanum til okkar en Danielle McEwan hélt þennan fyrirlestur og Daria Pajak bauðst til að koma í stað Tannya til að af þessu yrði.

Á þessum fyrirlestri fóru þær yfir hvaðan þær koma og byrjun þeirra í keilu. Þær ræddu töluvert um nauðsyn þess að halda sér í líkamlega góðu formi til að eiga auðveldara með að halda út í keppni. Sérstaklega ræddu þær um nauðsyn þess að styrkja miðsvæði líkamans (core) og fætur. Oft eru þær að spila 6 til 8 leiki, jafnvel tvisvar á dag og því skiptir það miklu máli að líkaminn sé í standi.

Þær fóru yfir hvernig keppnistímabil þeirra er úti í BNA og hvernig þær skipuleggja æfingar sínar. Ræddu þær um að fókusera á 3 atriði í einu og æfa þær í 1 til 3 tíma í senn. Ef þær eru ekki vel upplagðar þá frekar sleppa þær æfingunni þ.e. fara heim og koma þá aftur þegar upplagið er betra. Ræddu um að þær fái ekkert úr því að æfa atriði ef hugur er ekki að meðtaka það sem er verið að gera.

Komið var inn á að þær halda dagbók og skrifa í hana athugasemdir um þá staði sem þær spila á upp á seinni tíma ef þær koma þangað aftur. Þær fara í smá rannsóknarvinnu á hverjum stað, spá í uppbyggingu staðarins, hvar eru útidyr, er eldhús nálægt brautum því hitastig húss hefur áhrif á olíuna á brautunum og það getur verið misjafnt eftir því hvar í húsinu þær eru. Þeirra skoðun er að konur séu duglegri að ásaka sjálfa sig þegar illa gengur á meðan karlarnir bölva frekar húsinu, olíunni o.sv.fr. Mikill munur er á hugsunarhætti karla og kvenna. Komið var inn á leifakerfi. Til eru nokkur kerfi og hver og einn þarf að finna sitt kerfi til að vinna út frá.

Bentu þær á mikilvægi þess að hver og einn reyni að læra sem mest um keiluna. Nóg er af YouTube videó sem má læra af, lesa sögur íþróttamanna sem skara framúr. Bentu þær sérstaklega á bókina The 5 second rule eftir Mel Robbins.

Það er von þeirra sem að þessum fyrirlestri stóðu að íslenskar keilukonur hafi notið góðs af honum og að hann komi til með að efla íslenskar konur í keilu.

RIG19_Konur_i_keilu_1

RIG19_Konur_i_keilu_2

RIG19_Konur_i_keilu_3

RIG19_Konur_i_keilu_4

X