ÍRingar valdir til þátttöku á EM U18 og HM U20

Elísabet Rut Rúnarsdóttir í kúlu á Stórmóti ÍR 2018

Tilkynnt hefur verið hvaða íþróttamenn hafa verið valdir til að keppa fyrir Íslands hönd á EM U18 og HM U20.

Þrjár stúlkur úr ÍR fara á EM, sem haldið verður í Györ í Ungverjalandi 5.-8. júlí nk. Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppir í sleggjukasti, en hún setti aldursflokkamet 16-17 ára stúlkna fyrr í vor. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir mun keppa í 100 og 200 m hlaupi. Fyrr í þessum mánuði setti hún Íslandsmet í 200 á tímanum 23,61 sek, sem er besti tími ársins í Evrópu hjá stúlku undir 18 ára. Helga Margrét Haraldsdóttir mun keppa í kúluvarpi. Auk þeirra þriggja munu Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Breiðabliki og Valdimar Erlendsson úr FH taka þátt í mótinu. Tveir þjálfarar fara utan með hópnum, þeir Brynjar Gunnarsson og Bergur Ingi Pétursson, sem báðir koma frá ÍR.

HM U20 verður haldið í Tampere í Finnlandi dagana 10.-15. júlí og verður lið Íslands skipað þremur stúlkum úr ÍR. Andrea Kolbeinsdóttir keppir í 3000 m hindrunarhlaupi en fyrir tæpri viku stórbætti hún Íslandsmetið í greininni. Erna Sóley Gunnarsdóttir keppir í kúluvarpi, en hún hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og sló aldursflokkamet 18-19 ára stúlkna í byrjun þessa mánaðar. Þá mun Tiana Ósk Whitworth keppa í 100 m hlaupi en um síðustu helgi jafnaði hún aldursflokkamet Guðbjargar Jónu í flokki 18-19 ára og 20-22 ára með því að hlaupa 100 m á 11,68 sek. Með stúlkunum fara tveir þjálfarar frá ÍR, þær Martha Ernstsdóttir og Kristín Birna Ólafsdóttir.

Til hamingju með árangurinn og gangi ykkur vel á mótunum!

X