Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir setti í dag glæsilegt Íslandsmet í 200m hlaupi á Smáþjóðameistaramótinu sem fram fór í Liechtenstein. Tími Guðbjargar var 23,61 sek og bætti hún fyrra met um 0,20 sek, en það setti Guðrún Arnardóttir í Óðinsvéum í júní 1997. Með þessum árangri hefur Guðbjörg, sem verður 17 ára í árslok, náð lágmarki í 200m hlaupi á HM U20 sem fram fer í Tampere í Finnlandi og EM U18 sem haldið verður í Györ í Ungverjalandi. Rúmlega vika er síðan hún náði lágmarki á mótin í 100m hlaupi. Guðbjörg Jóna keppti einnig í 100m hlaupi á Smáþjóðameistaramótinu þar sem hún hafnaði í fjórða sæti á tímanum 11,72 sek.
Af 15 keppendum í liði Íslands á mótinu voru sjö ÍR-ingar auk Guðbjargar Jónu. Thelma Lind Kristjánsdóttir bætti Íslandsmetið í kringlukasti í aldursflokki 20-22 ára stúlkna með kasti upp á 52,80 m og var það næstlengsta kast keppninnar, aðeins 33 cm styttra en sigurkastið. Er þetta önnur bæting Thelmu á metinu á fjórum vikum sem óðfluga nálgast 36 ára gamalt Íslandsmet Guðrúnar Ingólfsdóttur, 53,86m.
Ívar Kristinn Jasonarson sigraði í 400m hlaupi karla á persónulegu meti, 47,76 sek. Ívar hljóp einnig lokasprettinn, 400m, fyrir sveit Íslands, sem sigraði í 1000m boðhlaupi karla á tímanum 1:52,71 mín. Guðni Valur Guðnason vann sömuleiðis sína grein, kringlukast karla, með kasti upp á 60,25m.
Guðbjörg Jóna kom einnig við sögu í 1000m boðhlaupi kvenna þar sem íslenska sveitin deildi fyrsta sætinu með sveit Kýpur og var tími þeirra 2:11,36 mín. Tvær aðrar ÍR-stúlkur skipuðu sveitina, þær Tiana Ósk Whitworth og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir, auk Þórdísar Evu Steinsdóttur úr FH. Tiana keppti einnig í 100m hlaupi þar sem hún hafnaði fimmta á tímanum 11,87 sek. Hrafnhild varð sjötta í 200m hlaupinu á tímanum 24,30 sek.
Erna Sóley Gunnarsdóttir varð fjórða í kúluvarpi og kastaði 14,26m, sama sæti og Andrea Kolbeinsdóttir hafnaði í í 3000m hlaupi og var tími Andreu 9:46,93 mín.
ÍR-ingar voru í eldlínunni á fleiri vígstöðvum í dag, en nú stendur yfir Norðurlandameistaramót U23 í fjölþrautum og er mótið haldið í Ullensaker í Noregi.
Að loknum fyrri degi er Benjamín Jóhann Johnsen í fimmta sæti í tugþraut pilta 20-22 ára með 3376 stig, 404 stigum á eftir efsta manni og aðeins 12 stigum á eftir Blikanum Ara Sigþóri Eiríkssyni sem er fjórði. Þriðji Íslendingurinn, Guðmundur Karl Úlfarsson Ármanni, er þriðji með 3536 stig. Benjamín hljóp 100m á 11,45 sek, stökk 6,05m í langstökki, kastaði kúlu 10,56m, stökk 1,99m í hástökki og hljóp 400m á 52,50 sek. og bætti sig bæði í 100m og hástökki.
Helga Margrét Haraldsdóttir er þriðja í sjöþraut 16-18 ára stúlkna með 3077 stig, 237 stigum á eftir stúlkunni í fyrsta sæti. Helga Margrét hjóp 100m grindahlaup á 14,79 sek, sem er bæting hjá henni, fór 1,49m í hástökki, kastaði kúlunni 13,75 m og hljóp 200 m á 25,75 sek.
,