Vormót HSK fór fram á Selfossi í gærkvöldi. Þar var mikið um góðan árangur og bætingar meðal ÍR-inga.
Í 100m hlaupi kvenna var hörkukeppni milli Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur og Tiönu Ósk Whitworth. Guðbjörg Jóna sigraði hlaupið á 11,68 sekúndum en Tiana var fylgdi fast á eftir á tímanum 11,72 sekúndum. Þetta var bæting hjá þeim báðum og lágmark á Heimsmeistaramót 20 ára og yngri sem fer fram í Tampere í Finnlandi í byrjun júlí. Þar að auki bætti Guðbjörg Jóna aldursflokkamet í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára sem Tiana setti í fyrra. Þær Helga Margrét Haraldsdóttir, Elma Sól Halldórsdóttir, Fanney Rún Ólafsdóttir og Ásta Margrét Einarsdóttir kepptu einnig allar í 100m hlaupinu og bættu allar sinn persónulega besta árangur.
Í langstökki kvenna keppti Hildigunnur Þórarinsdóttir og náði þriðja sæti með stökk upp á 5,47metra. Elma Sól, Fanney Rún og Bergrún Ósk kepptu einnig allar í langstökki og náði Bergrún að bæta sinn persónulega besta árangur. Fanney Rún keppti einnig í hástökki og varð þriðja þegar hún stökk yfir 1,50metra.
Í kúluvarpi stúlkna 17 ára og yngri sigraði Helga Margrét Haraldsdóttir með kast upp á 13,68metra sem er bæting utanhúss hjá henni.
ÍR karlarnir okkar voru líka að standa sig vel. Hinn ungi og fjölhæfi Úlfur Árnason keppti í bæði spjótkasti og langstökki og bætti sinn persónulega besta árangur spjóti og jafnaði í langstökki. Benjamín Jóhann Johnsen sem nýlega var valinn í hóp ungmenna sem keppir fyrir Íslands hönd NM í fjölþrautum um aðra helgi bætti sinn besta árangur í spjótkasti þegar hann náði öðru sæti og kastaði 58,25metra. Einar Daði Lárusson keppti í 110metra grindahlaupi og varð í öðru sæti eftir hörkukeppni við Ísak Óla, UMSS. Árni Haukur Árnason varð í fjórða sæti í 100m hlaupi karla og bætti sinn persónulega besta árangur og hljóp á 11,65sekúndum. Sigurvegari í hlaupinu var Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS á tímanum 10,76sek en hann æfir undir handleiðslu Brynjars Gunnarssonar, þjálfara hjá ÍR.
Þess má einnig geta að Ívar Kristinn Jasonarson 400m grindahlaupari keppti erlendis á sínu fyrsta móti í sumar um síðustu helgi og hljóp á 52, 92 sekúndum sem er góð opnun hjá honum í fyrsta hlaupi. Ívar er í hörkuformi og stefnir á mót aftur um næstu helgi í Belgíu.
Þetta er sannarlega góð byrjun á sumrinu hjá ÍR-ingum en næsta mót hérlendis er Vormót ÍR þar sem keppt verður á heimavelli þann 13. júní.