WOW RIG 2018 hefst með látum

Í morgun var leikið í svokölluðum Early Bird riðli á WOW RIG 2018 keilumótinu. Að venju fer það fram í Keiluhöllinni Egilshöll. Mættu 33 keppendur til leiks í morgun og var skorið hátt. Arnar Sæbergsson úr ÍR spilaði best í dag eða 1.481 í 6 leikjum sem gera 246,8 í meðaltal. Arnar sigraði mótið í fyrra og nú er spurning hvort hann ætli sér að verða sá fyrsti sem vinnur mótið tvö ár í röð. það kemur allt saman í ljós en á fimmtudaginn kemur þann 1. febrúar hefst mótið formlega en þá mæta erlendir gestir á mótið. Þeirra á meðal eru Heimsmeistari einstaklinga 2016 og Evrópumeistari einstaklinga 2017 en þeir mæta ásamt fleiri gestum. Leikið verður á fimmtudag fram á sunnudag en þá fara úrslitin í mótinu fram og verða þau í beinni sjónvarpsútsendingu sunnudaginn 4. febrúar frá kl. 15:30 til 17:0 á aðalrás RÚV.

24 eftstu keilararnir komast áfram í úrslitakeppnina og sem stendur er skorið í 24. sæti 1.093 pinnar eða 182 í meðaltal en vel má búast við því að það þurfi vel yfir 1.200 eða 200 í meðaltal til að komast áfram. Stöður í mótinu og upplýsingar um það má finna hér á vefnum.

Í mótinu í morgun setti Matthías Leó Sigurðsson frá ÍA Íslandsmet í 6 leikjum í 4. flokki drengja en hann spilaði 938 og bætti 20 ára gamallt met um 3 pinna. Óskum honum til hamingju með enn eitt Íslandsmetið.

 

RIG2018_Sponsar

X