Íþróttafélag Reykjavíkur

Forkeppni keilu á WOW RIG 2018 lokið – Þrír 300 leikir

Núna er forkeppni í keilu á WOW RIG 2018 lokið. 24 efstu keilararnir halda keppni áfram á morgun sunnudaginn 4. febrúar þar sem leikið er í útsláttarformi uns einn stendur eftir sem WOW RIG meistari 2018. Bein útsending verður frá undanúrslitum og úrslitum á aðalrás RÚV frá kl. 15:30 til 17:00

Í forkeppninni í ár náðu þrír keilarar að leika fullkominn leik eða 300 pinna. Það voru þeir Gústaf Smári Björnsson úr Keilufélagi Reykjavíkur (KFR) sem náði leiknum í 1. riðli forkeppninnar á fimmtudaginn var, Svíinn Robert Anderson náði sínum 35. fullkomna leik í keppni í gær föstudag en Robert er vel tengdur inn í ÍR og hefur m.a. séð um þjálfun s.l. daga. Andrés Páll Júlíusson úr ÍR náði svo sínum öðrum fullkomna leik í keppni í dag en hann náði einmitt sínum fyrsta 300 leik á RIG í fyrra og setti þá Íslandsmet í tveim leikjum eða 579 pinnar.

Eftir forkeppnina er Heimsmeistari einstaklinga 2016 Daninn Jepser Agerbo efstur með 1.553 pinna í 6 leikja seríu eða 258,8 í meðaltal. Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR spilaði sig í dag upp í 2. sætið með 1.525 seríu eða 254,2 í meðaltal. Arnar Sæbergsson úr ÍR er síðan í 3. sæti með 1.481 pinna eða 246,8 í meðaltal. Arnar vann keppnina í fyrra og stefnir ótrauður að því að verða sá fyrsti sem ver RIG titilinn en þetta er í 10. sinn sem ÍR Keiludeild stendur fyrir móti á Reykjavik International Games.

Stöður og upplýsingar um mótið má finna hér.

RIG2018_Sponsar

X