Nanna Hólm og Einar Már Íslandsmeistarar para 2017

Um helgina fór fram Íslandsmót para í keilu en keppt var laugardag og sunnudag í Keiluhöllinni Egilshöll. 15 pör tóku þátt en skv. reglugerð Keilusambandsins má par koma frá mismunandi félagi. Frá ÍR tóku þátt 17 keilarar þar af 6 pör þar sem bæði koma úr ÍR.

Það voru þau Nanna Hólm, sem er nýgengin til liðs við ÍR frá Þór Akureyri, og Einar Már Björnsson sem fóru alla leið í mótinu og sigruðu Vilborgu Lúðvíksdóttur og Guðmund Sigurðsson úr ÍA í úrslitakeppninni. Þau enduðu einnig í efsta sæti eftir forkeppnina og héldu því sæti í milliriðlinum og þurftu því að sigra tvær viðureignir í úrslitum til að hampa titlinum. Nanna og Einar töpuðu þar fyrsta leiknum með 363 pinnum gegn 386 en hrukku síðan heldur betur í gang og tóku næstu tvo leiki með 379 pinnum gegn 318 og loks 442 pinnar gegn 404 en þar spilaði Nanna 244 leik. Voru þau með 197,3 í meðaltal í úrslitunum. Vel gert og til hamingju með titilinn.

X