Aníta Hinriksdóttir varð í dag önnur í 800m hlaupi á Evrópumeistaramóti U23 sem fer fram í Bydgoszcz í Póllandi. Aníta, sem leiddi lengst af, hljóp á tímanum 2:05.02mín, en í undanrásunum hljóp hún á 2:03.58 mín. Hin belgíska Renée Eykens sigraði og var tími hennar 2:04.73 mín. og Hannah Segrave frá Írlandi þriðja á 2:05.53 mín.
Til hamingju með silfurverðlaunin Aníta!
Aðrir Íslendingar voru einnig í eldlínunni í dag. Sindri Hrafn Guðmundsson úr Breiðabliki keppti í úrslitum í spjótkasti og varð níundi með kasti upp á 74,42m. Sigurvegari í spjótkastinu var Ungverjinn Norbert Rivasz-Tóth á nýju landsmeti, 83,08m. Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH keppti í undanúrslitum í 400m grindahlaupi. Arna Stefanía varð önnur í fyrri riðlinum á tímanum 57,02 og þar með komin í úrslitahlaupið sem fer fram á morgun. Og eins og sagt var frá hér á síðunni fyrr í dag tryggði Guðni Valur sig inn í úrslitin í kringlukasti sem einnig fara fram á morgun. Guðni Valur átti sjötta lengsta kastið í forkeppninni, 56,67m.
Á morgun hefst keppni í kringlukasti hjá Guðna Val kl. 12.30 að íslenskum tíma og kl. 13.57 hjá Örnu Stefaníu. Við óskum þeim báðum góðs gengis á morgun.