ÍR átti alla keppendur á fyrsta frjálsíþróttamóti sem haldið er í landinu eingöngu fyrir stúlkur. Var það jafnframt fyrsta keppni kvenna í frjálsum hér á landi. Stúlknamótið fór fram á íþróttavellinum laugardaginn 19. júní 1926 og var hluti af Landspítalasjóðsdeginum. Keppt var í 60 metra hlaupi, 30 metra hlaupi með egg í skeið, kartöfluhlaupi, knattkasti, langstökki og hástökki [af kistu]. Tólf keppendur mættu til leiks.