Tveir sigurleikir um helgina

© - Hafliði Breiðfjörð

Meistaraflokkar karla og kvenna í knattspyrnu unnu bæði sigur á liðum frá Akureyri um helgina á heimavelli. Meistaraflokkur karla mætti Þór frá Akureyri á laugardaginn. Gestirnir frá Akureyri komust yfir á 85 mínútu með marki frá Sveini Elíasi Jónssyni, en heimamenn sýndu mikla þrautseigju með því að jafna metin á 89 mínútu með marki frá Viktori Erni Guðmundssyni. Dramatíkin hélt áfram því á 95 mínútu skoraði Sergine Modu Fall sigurmark leiksins. Frábær 2-1 sigur hjá ÍR staðreynd en með sigrinum hoppar ÍR upp úr fallsæti og er með fjögur stig eftir fimm umferðir í 10. sæti Inkasso deildarinnar.

Meistaraflokkur kvenna mætti Hömrunum frá Akureyri á mánudaginn annan í Hvítasunnu. Aftur var það liðið frá Akureyri sem að skoraði fyrst en Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir kom gestunum yfir á 30 mínútu leiksins. Andrea Magnúsdóttir jafnaði metin fyrir ÍR á 61 mínútu og Ástrós Eiðsdóttir skoraði sigurmark ÍR á 79 mínútu, nánast sama handrit frá karlaleiknum á laugardaginn og annar 2-1 sigur hjá ÍR á liði frá Akureyri staðreynd. Eftir sigurinn er ÍR í 7. sæti 1. deildar með sex stig eftir fjóra leiki en liðin frá 4 – 8 sæti eru öll með sama stigafjölda.

Mynd tekin af fotbolti.net.  © – Hafliði Breiðfjörð

X