Úrslit á Íslandsmóti einstaklinga í keilu með forgjöf í kvöld

Frá því á laugardaginn, á 110 ára afmæli ÍR, hefur Íslandsmót einstaklinga með forgjöf í keilu verið í gangi. Í kvöld fara fram úrslit á því móti og á ÍR 4 keppendur af 6 í kvennaflokki og 2 af 6 í karlaflokki. Búið er að leika 8 leiki í forkeppni og 4 í milliriðli á mótinu og er staðan í keppninni þannig að í kvennaflokki er Helga Ósk úr KFR efst með 2.347 pinna, í 2. sæti er Berglind Schewing úr ÍR með 2.322 pinna, 3. er Elva Rós Hannesdóttir úr ÍR með 2.303, í 4. sæti er Halldóra Ingvarsdóttir úr ÍR með 2.300 og í 5. sæti er Anna Sigríður Magnúsdóttir með 2.293 pinna.

Hjá körlum er í fyrsta sæti Jóhann Ársæll Atlason úr ÍA með 2.502 pinna. Jóhann Á Jóhannsson úr ÍR er með 2.402 pinna og í 6. sæti er Birgir Guðlaugsson úr ÍR með 2.396 pinna.

Í kvöld verður eins og segir leikið til úrslita og fer keppnin fram þannig að leikið er maður á mann, 5 leikir alls, þar sem sigurvegari fær 20 bónuspinna fyrir sigurinn. Að þeim leikjum loknum fara fram úrslit þriggja efstu þannig að allir spila saman á brautarpari og dettur lægsti keilarinn út eftir einn leik en hinir tveir leika einn leik um 1. sætið. Keppnin hefst kl. 19:00 í Keiluhöllinni Egilshöll.

X