Aníta íþróttakona og Guðni Valur íþróttakarl ársins hjá ÍR

Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona var valin íþróttakona ÍR og Guðni Valur Guðnason frjálsíþróttamaður íþróttakarl ársins 2016 hjá ÍR á verðlaunahátíð félagsins í gær. Stjórnir allra deilda félagsins tilnefndu íþróttakonu og íþróttakarl ársins í sinni deild og úr þeim hópi voru Aníta og Guðni valin. Allir tilnefndir íþróttamenn deilda voru heiðraðir á verðlaunahátíðinni sem var sú fjölmennast sem haldin hefur verið hjá félaginu. Hér að neðan eru nöfn þeirra sem heiðraðir voru og umsagnir um hvern íþróttamann.

 

anita-og-gudni-valur-2016

 Ingigerður Guðmndsdóttir formaður  ÍR,
Aníta Hinriksdóttir, Guðni Valur Guðnason
og Guðrún Brynjólfsdóttir varaformaður.

 

Frjálsíþróttakona ársins 2016 Aníta Hinriksdóttir 

Aníta byrjaði árið mög vel með Norðurlandameistaratitli í 800m innanhúss í febrúar og á heimsmeistaramótinu innnanhúss í mars náði hún þeim frábæra árangri að ná 5. sæti. Hún vann gullverðlaun á Smáþjóðameistaramótinu á Möltu, vann glæsilegan sigur á alþjóðlegu móti í Prag í júní, varð önnur á alþjóðlegu móti í Luzern og þriðja á alþjóðlegu móti í Madrid. Á Evrómeistaramótinu í júlí náði Aníta þeim glæsilega árangri að komast í úrslit í 800 m hlaupi og varð þar í 8. sæti. Hápunktinum var síðan náð á Ólympíuleikunum þar sem Aníta setti Íslandsmet, hljóp á 2:00,14 mín, og var mjög nærri því að komast í undanúrslit með 20 besta tímann í undanrásum af 65 keppendum. Aníta var valin Frjálsíþróttakona ársins 2016 af Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Frjálsíþróttakarl ársins 2016 Guðni Valur Guðnason

Árið 2016 náði Guðni Valur þeim frábæra árangri að komast á Ólympíuleikana í Ríó eftir aðeins tveggja ára undirbúning þar sem hann keppti í kringlukasti og varð í 21. sæti af 35 keppendum. Guðni Valur kastaði lengst 61.85 metra á árinu sem hann gerði í Heerhugowaard, í Hollandi, en er sá árangur tæplega 6 metrum frá Íslandsmeti. Þar að auki sigraði Guðni Valur kringlukast á Smáþjóðaleikunum á Möltu í júní, og náði hann 22. Sæti á Evrópumeistaramótinu Amsterdam í júlí. Guðni hefur náð ótrúlegum árangri á stuttum ferli sem kringlukastari og á greinilega framtíðina fyrir sér í þessari grein. Guðni Valur er einbeittur og duglegur íþróttamaður en gleðin skýn í gegn og smitar frá sér bæði á æfingum og í keppni. Hann er frábær fyrirmynd þeirra sem yngri eru innan vallar sem utan í öllu því sem hann gerir. Guðni Valur var valinn Frjálsíþróttakarl ársins 2016 af Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Júdókona ársins 2016 Aleksandra Lis
Aleksandra byrjaði ung að æfa júdó hjá ÍR og hefur æft óslitið síðan. Hún tók þátt í öllum júdómótum ársins hér á landi og vann þau öll. Aleksandra varð í vor Íslandsmeistari annað skiptið í röð en þar sem engin þátttaka var í hennar þyngdarflokki þurfti hún að sigra þyngdarflokkinn fyrir ofan hana og gerði hún það með miklum yfirburðum. Æfingasókn hennar er til fyrirmyndar og nær fullkomin. Auk þess að æfa íþróttina af kappi hefur Aleksandra aðstoðað við þjálfun yngri iðkenda og er hún efni í góðan þjálfara.

Knattspyrnukona ársins 2016 Andrea Magnúsdóttir
Andrea spilaði frábærlega með sínum kraftmikla leikstíl framarlega á vellinum allt sumarið 2016. Hún var einn af máttastólpum meistaraflokksliði ÍR sem m.a. komst í umspil um sæti í Úrvalsdeild. . Andrea er frábær leikmaður með jákvætt og hvetjandi viðhorf innan sem utan vallar. Hún hefur vafalaust unnið sér inn þann stað í Breiðholtinu að geta kallast alvöru ÍR-ingur.

Taekwondokona ársins 2016 Ibtisam El Bouazzati
Keppnisárangur hennar á árinu hefur vakið verðskuldaða athygli, sérstaklega í ljósi þass að hún hafði lítið keppt fyrr en á árinu 2016.
Taekwondo hefur 2 keppnisgreinar, Bardaga og Form, en í Formi er keppandinn einn á gólfinu og sýnir fyrirfram ákveðnar æfingar.
Á þremur Bikarnótum náði hún verðlaunasætum oftar en einu sinni í bardaga og formi ásamt því að vinna til verðlauna í formi para og hópa. Ibtisam náði þeim frábæra árangri að ná 2. sæti á Íslandsmeistaramóti 2016 í Formi í einstaklingskeppninni og í 3. sæti í Formi para.
Hún steig hún sín fyrstu spor með krakkalandsliðinum, bæði í Bardaga og Formi, og í dag æfir hún með landsliðinu í Formi.

Karatekona ársins 2016 Kamila Buracewska

Kamila hefur lagt mikinn metnað í æfingar og náð góðum árangri. Hún varð Íslandsmeistari 14 ára unglinga í kata 2016 og náði í 3. sæti í hópkata unglinga í aldursflokki 16-17 ára. Á Reykjavík International Games keppti hún bæði í kata youth og kumite youth kvenna og náði í 3. sæti í báðum flokkum. Hún varð Bushidomeistari veturinn 2015-2016 í kata 13 ára. Kamila er góð fyrirmynd yngri iðkenda, hún er hjálpsöm, jákvæð og prúður íþróttamaður, en mætir ákveðin og einbeitt til leiks. Hún er með brúnt belti í karate og æfir með Íslenska landsliðinu.

Keilukona ársins 2016 Linda Hrönn Magnúsdóttir

Lind Hrönn hafnaði í 2. sæti á Íslandsmóti einstaklinga 2016 í kvennaflokki, í 2. sæti á Íslandsmóti para 2016 með Stefáni Claessen og var í liði ÍR TT sem varð Bikarmeistari kvennaliða 2016. Linda Hrönn var í landsliði Íslands á EM mótinu í Vín Austurríki í sumar sem með frammistöðu sinni þar tryggði sér þáttökurétt á HM 2017 í Kuwait.

Handknattleikskona ársins 2016 Sigrún Ása Ásgrímsdóttir

Sigrún Ása var valin í æfingahóp A-landsliðsins á árinu. Hún hefur verið einn af lykilleikmönnum meistaraflokks kvenna sem leikur í 1. Deild. Sigrún Ása er ekki bara öflugur leikmaður heldur er hún komin í þjálfarateymi unglingaflokkannna og miðlar þar af reynslu sinni og þekkingu til yngri iðkenda ÍR í handboltanum.

Skíðakona ársins 2016 Vigdís Sveinbjörnsdóttir

Vigdís hefur vaxið mjög sem skíðakona undanfarin ár enda lagt mjög hart að sér við æfingar. Vigdís varð Unglingameistari Íslands, sigraði stórsvigskeppnina á Andrésar Andarleikunum og varð 5. í Bikarkeppni Skíðasambands Íslands í flokki 14-15 ára.

Karatekarl ársins 2016 Aron Anh Ky Huynh

Hann varð Íslandsmeistari unglinga 16-17 ára í kata 2016 og landaði fyrsta Íslandsmeistaratitli ÍR í kumite unglinga í -68 kg flokki 16-17 ára, Keppti á Íslandsmeistaramóti fullorðinna í kumite þar sem hann 2. Sæti karlaflokki, -67 kg. Aron varð Bushidomeistari í kata veturinn 2015-2016 í sínum aldursflokki. Hann varð einnig bikarmeistari karla í karate 2016. Aron er hjálpsamur og prúður íþróttamaður, góð fyrirmynd yngri iðkenda. Hann er með svart junior belti í karate og var valinn í Íslenska landsliðið í karate 2016 og keppti fyrir Íslands hönd á Norðurlandameistaramótinu 2016. Aron var nýlega valinn Karatekarl ársins af Karatesambandi Íslands.

Keilukarl ársins 2016 Hafþór Harðarson

Hafþór var liðsmaður ÍR sem varð Íslandsmeistari karlaliða 2016. Hann varð einnig Íslandsmeistari í tvímenningi 2016 og annar á RIG 2016, efstur Íslendinga. Sigraði á AMF mótaröðinni 2016 og varð efstur á meðaltalslista Keilusambands Íslands 2016. Hafþór setti Íslandsmet í 8 leikjum á RIG 2016, og náði stigum á Evrópumótatúrnum 2016.

Knattspyrnukarl ársins 2016 Jón Gísli Ström

Jón Gísli varð markakóngur 2. deildar í fótbolta á árinu og lykilmaður í liði ÍR í deildinni sem vann yfirburðasigur og tryggði sér rétt til keppni í 1. Deild/Incassodeildinni 2017. Hann skoraði 22 mörk í 21 leik var Jón lang markahæsti leikmaður liðsins. Jón er frábær leikmaður með stórt og öflugt ÍR-hjarta sem slær í takt við gang liðsins. Hann er virkur og jákvæður innan félagsins og góð fyrirmynd ungra ÍR-inga. Áhrif Jóns á ÍR-liðið eru ótvíræð en hann mun leiða liðið í næstefstu deild næsta sumar.

Handknattleikskarl ársins 2016 Jón Kristinn Björgvinsson
Jón Kristinn er leikmaður meistaraflokksliðs ÍR í handbolta sem leikur í 1. Deild. Hann hefur bætt sig gríðarlega á þessu ári og tók við erfiðu hlutverki Bjarni Fritzsonar í liðinu og hefur leyst það vel af hendi. Hann er yngri leikmönnum góð fyrirmynd og félaginu til sóma.

Skíðakarl ársins 2016 Kristinn Logi Auðunsson

Kristinn stóð sig mjög vel á síðasta keppnistímabili og varð m.a. Bikarmeistari Íslands í flokki 18-20, í 4. sæti í flokki fullorðinna og valinn í B-landslið Íslands. Kristinn stundar æfingar og keppni í vetur í Colorado í Bandaríkjunum með háskólaliði sínu.

Júdókarl ársins 2016 Matthías Stefánsson

Þó Matthías eigi stuttan feril í júdó hefur hann náð góðum árangri á þeim skamma tíma. Hann varð Reykjavíkurmeistari í sínum þyngdarflokki auk þess að vera þar annar í opnum flokki þar sem hann glímdi við mikið þyngri andstæðinga. Matthías náði 2.sæti á Íslandsmótinu í vor. Mæting hans og áhugi á æfingum er til fyrirmyndar. Ef hann heldur áfram að æfa af eins miklum áhuga og hann gerir nú styttist í Íslandsmeistaratitil og jafnvel alþjóðlegan frama.

Körfuknattleikskarla árins 2016 Sigurkarl Róbert Jóhannesson

Sigurkarl er fæddur og uppalinn ÍR-ingur og hefur alla tíð leikið með ÍR, fyrir utan tímabilið 2013-2014 þegar hann lagði land undir fót og lék með menntaskólaliði í Washington DC í Bandaríkjunum. Hann hefur leikið með meistaraflokki ÍR síðustu tvö tímabilin og hefur tekið stórstígum framförum. Þá hefur Sigurkarl verið burðarás í öllum yngri flokkum sem hann hefur leikið með síðastliðin ár og náð góðum árangri en síðasta vor leiddi Sigurkarl, ásamt Hákoni Erni Hjálmarssyni, sína menn í drengjaflokki til íslandsmeistaratitils í drengjaflokki. Sigurkarl var einnig mikilvægur hlekkur í U-18 liði Íslands sem varð Norðurlandameistari 2016 og tók þátt í EM.
Sigurkarl er afburða liðsfélagi með sitt jákvæða, skemmtilega og kröftuga viðmót. Hann er frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmann.

Taekwondokarl ársins 2016 Sveinn Logi Birgisson
Sveinn vann fyrsta mót ársins sem var Bikarmót II náði gulli í Bardaga. Sveinn varð svo Íslandsmeistari í bardaga og náði stuttu síðar 1. sæti í bardaga og 3. sæti í Formi á næsta Bikarmóti. Á Íslandsmeistaramótinu í Formi og var hann hársbreidd frá öðrum Íslandsmeistaratitilinum á árinu með því að ná 2. sæti. Síðasta mót ársins var síðan Bikarmót III. Þar keppti hann bara í bardaga og fullkomnaði árangur ársins með sigri og vann því gull í bardaga á öllum mótum ársins og tapaði ekki einum bardaga í þessum 4 mótum sem er glæsilegur árangur. Sveinn hóf ferili með krakkalandsliðinu í Bardaga á árinu 2016.

X