ÍR-Keiludeild hefur ákveðið með stuðningi frá RANNÍS að efna til átaks til að fá fleiri konur inn í keiluna. Það gerum við nú með því að bjóða hressum konum hvort sem það er vinkonuhópur, vinnufélagar eða úr fjölskyldu til að taka þátt í Utandeild Keilusambandsins í vetur.
Vissir þú að það er til Utandeild í keilu?
Utandeildin er liðakeppni þar sem allir hafa forgjöf til að jafna leikinn og því geta allir, óháð getu, tekið þátt, átt séns og haft gaman af. Í Utandeildinni hittist fólk einu sinni í mánuði á miðvikudagskvöldi og skemmtir sér í góða vina hópi. Keppnin er haldin af afrekshópum Keilusambandsins þeim til stuðnings og fer fram í Keiluhöllinni Egilshöll.
ÍR-Keiludeild ætlar í vetur með dyggum stuðningi frá RANNÍS að styrkja kvennalið til þátttöku í Utandeildinni í ár með það markmið að fjölga konum í keilu. Kröfurnar eru að liðið sé skipað a.m.k. 75% af konum og að það séu konur sem almennt stunda ekki keilu eða hafa ekki spilað keilu í nokkur ár. Lágmarksfjöldi í lið eru 3 en allt að 8 geta verið í hverju liði. Að auki mun ÍR-Keiludeild bjóða liðinu á æfingu með þjálfara svona til að ná að gera keilu-stílinn sem glæsilegastan.
Sendu okkur póst á keila@ir.is eða sendu okkur skilaboð hér í gegn til að kynna þér málið betur.