Víðavangshlaup ÍR – Vorboðinn sanni í yfir eina öld

Vorboðinn sanni, Víðavangshlaupi ÍR, sem farið hefur fram á Sumardaginn fyrsta í 107 ár, utan eitt ár í covid, verður haldið 20. apríl næstkomandi í miðbær Reykjavíkur sem alvöru götuhlaup. Hlaupið er einnig Íslandsmótið í 5 km götuhlaupi sem laðar að okkar bestu götuhlaupara sem setja markið hátt og stefna jafnvel á brautarmet!

 

ÍR-ingar eru ákaflega stoltir af langri og samfelldri sögu Víðavangshlaups ÍR sem á sínum tíma var eitt af fáum hlaupum sem almenningi stóðu til boða – það var áður en hlaup urðu almennings sport! Þótt heiti hlaupsins kunni að vera fornt þá vita flestir að hlaupið er eitt fjölmennasta 5 km hlaup landsins og er það haldið í hjarta borgarinnar eins og alla sögu þess. Til fjölmargra ára hefur hlaupið jafnframt verið Íslandsmeistaramótið í 5 km götuhlaupi og hefur af þeim sökum dregið að fjölda keppnishlaupara sem vilja fagna sumarkomunni á viðeigandi hátt og taka stöðuna á sér á óbreyttum kúrsi frá ári til árs.

 

En hlaupið er að sjálfsögðu ekki aðeins fyrir okkar helsta afreksfólk – langt í frá. Allir eru velkomnir enda leggur ÍR áherslu á mikilvægt heilsueflingar og skemmtanagildið og að fjölskyldan hreyfi sig saman, þeir sem geta. Því er boðið upp á styttri vegalengd (2,7 km) fyrir þá sem eru styttra á veg komnir eða vilja ganga í stað þessa að hlaupa.

 

Enginn íþróttaviðburður hér á landi á eins langa sögu og Víðavangshlaupið en það verður haldið í 107. sinn í ár. Til að rifja stuttlega upp söguna, þá hefur hlaupið aldrei fallið niður en hefur þrisvar þurft að fara fram á öðrum degi en Sumardeginum fyrsta. Fyrst var það í tilefni af 25. hlaupinu árið 1940 þegar  stjórn félagsins ákvað að gera dagamun og var hlaupið þá liður í umfangsmiklum hátíðahöldum sem ÍR efndi til á uppstigningardegi, 2. Maí það ár. Árið 1949 var hlaupinu frestað vegna óhagstæðs veðurs og veikindafaraldurs í Reykjavík. Árið 2020 voru það covid takmarkanir sem urðu þess valdandi að hlaupið varð að sumarhlaupi í stað vorhlaups.

 

“Hátíð er til heilla best! Það voru einkunnarorðin sem forráðamenn ÍR völdu Víðavangshlaupi ÍR í upphafi vegna þess að þá var hlaupið haldið á tvöföldum helgidegi þar sem sumardaginn fyrsta bar upp á skírdegi árið 1916. Þessu verki frumherjanna hefur verið sýnd sú virðing allar götur síðan og hefur verið kappkostað að hlaupið færi fram með reisn.

Við ÍR-ingar hlökkum til að taka á móti sem allra flestum hlaupurum á öllum aldri á Sumardaginn fyrsta 2023 og fagna vorkomunni með frábæru hlaupi og samveru með gleði og þakklæti í hjarta.

X