Minningarsjóður Guðmundar Þórarinssonar verður Minningarsjóður Brynjars Gunnarssonar

Kæru ÍR-ingar.

Árið 2003 var stofnaður minningarsjóður í nafni Guðmundar Þórarinssonar frjálsíþróttaþjálfara sem hefði orðið 80 ára á því ári.

Sjóðurinn tók fljótt til starfa og hefur verið starfandi síðan, sent út greiðsluseðla á góðan hóp ÍR-inga árlega og veitt rúmlega 20 styrki frá upphafi. Frá byrjun var góð þátttaka í að greiða í sjóðinn og kunnum við sem höfum haldið utan um hann öllum bestu þakkir fyrir. En nú er svo komið að innkoma í sjóðinn hefur minnkað töluvert og telja umsjónarmenn sjóðsins ástæðu þess aðallega vera þá að ávallt vita færri og færri sem fá sendan greiðsluseðil hver Guðmundur Þórarinsson var. Kynslóðaskipti hafa orðið í starfi ÍR og þekking eldri iðkenda félagsins á Guðmundi hefur ekki flust yfir til þeirra yngri.

Því hefur verið ákveðið að breyta nafni minningarsjóðsins úr minningarsjóði Guðmundar Þórarinssonar í minningarsjóð Brynjars Gunnarssonar.

Brynjar Gunnarsson var sannur ÍR-ingur sem hafði verið tengdur frjálsíþróttadeild ÍR frá unga aldri. Hann fæddist 25. febrúar 1989, hóf æfingar í frjálsum hjá ÍR 1994, þá 5 ára gamall, í gamla ÍR-húsinu við Túngötu, síðan æfði hann og keppti í öllum aldursflokkum fyrir félagið og eftir að keppni lauk tók hann að þjálfa hjá félaginu og starfaði við þjálfun hjá ÍR í mörg ár. Fyrir nokkrum árum veiktist Brynjar af krabbameini en hann lét það ekki aftra sér við þjálfun og hélt henni áfram fram á síðasta dag. Brynjar lést af völdum krabbameins þann 1. febrúar 2021.

Við sem stöndum að minningarsjóðnum vonum að ákvörðunin um að breyta honum á þennan hátt muni bæði halda minningu Brynjars heitins á lofti  og að fleiri greiði í sjóðinn  sem þá nær að styrkja fleiri til góðra verka.

Í tengslum við nafnbreytinguna sest yngra frjálsíþróttafólk í stjórn minningarsjóðs Brynjars Gunnarssonar: Þorsteinn R. Þórsson, Kristín Birna Ólafsdóttir og Kristín Gunnarsdóttir (systir Brynjars).

Í stjórn minningarsjóðs Guðmundar Þórarinssonar voru frá upphafi: Jón Þ. Ólafsson, formaður, Gunnar Páll Jóakimsson og Kristín Ingibjörg Guðmundsdóttir (dóttir Guðmundar)

.

X