Skíðadeild ÍR tilnefndi systkynin Sigríði Dröfn og Kristinn Loga Auðunsbörn til íþróttakonu og íþróttakarls ÍR árið 2019 á verðlaunahátíð ÍR sem fram fór milli jóla og nýárs.
Sigríður Dröfn tryggði sér sæti í B landsliði Skíðasambandsins síðastliðið vor eftir góðan árangur vetrarins en hún varð Bikarmeistari SKÍ í flokki 18 – 20 og önnur í fullorðins flokki. Hún eyddi stórum hluta vetrarins við æfingar og keppni víðsvegar um Evrópu. Hefur hún verið meira og minna í Austurríki við æfingar síðan í byrjun september og stefnir að því að vera þar í vetur. Hún hefur lengi stefnt á að ná langt í íþróttinni og hefur mikinn metnað. Þess má geta að Sigríður Dröfn spilar auk þess með meistaraflokki í ÍR í fótbolta.
Kristinn Logi tók þátt í háskólamótaröðinni á vesturströnd Bandaríkjanna síðastliðin vetur, þar sem hann stundar háskólanám. Hann keppti á Heimsmeistaramótinu í Are í Svíþjóð í febrúar síðastliðnum. Kristinn hefur ávallt verið yngra skíðafólki góð fyrirmynd og hefur nú tekið að sér þjálfun í yngri flokkum skíðadeildarinnar.
Þess má geta að afi Sigríðar og Kristins, Kristinn Gíslason var gerður að heiðursfélaga ÍR við sama tækifæri.