Bikarkeppni FRÍ

Andrea Kolbeinsdóttir og Iðunn Björg Arnaldsdóttir í 1500 m hlaupi á 53. bikarkeppni FRÍ 2019

53. Bikarkeppni FRÍ fór fram í Kaplakrika í gær. Átta lið tóku þátt í keppninni, en bæði ÍR og FH sendu tvö lið til leiks. ÍR hefur borið sigur úr býtum í Bikarkeppninni sl. tvö ár en nú fóru leikar svo að FH hampaði titlinum og hlaut A lið þeirra 135 stig en A lið ÍR varð í öðru sæti með 118 stig. B lið ÍR varð í fimmta sæti, á eftir liði Breiðabliks og sameiginlegu liði norðanmanna úr KFA og UMSS, með 64 stig. Í kvennakeppninni varð A lið ÍR í öðru sæti á eftir FH-A en B lið ÍR varð í fjórða sæti. Hjá körlunum varð A lið ÍR einnig í öðru sæti en B liðið í því sjötta.

ÍR-ingar sigrðuðu í þriðjungi greina sem keppt var í á mótinu, eða sex, og alls komu 18 verðlaun í hlutu okkar fólks, þar af 15 til ÍR-A en þrenn til keppenda úr ÍR-B.

ÍR-ingar riðu á vaðið og sigruðu í fyrstu keppnisgrein dagsins, stangarstökki kvenna. Þar sigraði Hulda Þorsteinsdóttir örugglega með stökki upp á 4,05 m sem er það hæsta sem hún hefur stokkið á tímabilinu, en Hulda er að koma til baka eftir erfið meiðsli. Stella Dögg Eiríksdóttir Blöndal stökk 3,10 metra og varð þriðja.

Erna Sóley Gunnarsdóttir, sem vann til bronsverðlauna á EM U20 fyrr í þessum mánuði, sigraði í kúluvarpi á nýju mótsmeti, 14,85 m.  Katharina Ósk Emilsdóttir varð fimmta og var lengsta kast hennar 12 metrar sléttir, sem er bæting hjá henni.

Í spjótkasti kastaði Dagbjartur Daði Jónsson 69,70 m, 15,47 m lengra en sá sem varð í öðru sæti. Reynir Zoëga varð sjötti og kastaði 41,90 m.

Guðni Valur Guðnason sigraði í kringlukastinu og var lengst kast hans 57,33 m. Þar náði Ingvar Freyr Snorrason fjórða sætinu með kasti upp á 42,48 m sem er bæting hjá honum.

Þá sigruðu ÍR-ingar í 1500 m hlaupi karla og kvenna. Andrea Kolbeinsdóttir hljóp vegalengdina á 4:49,88 mín og Iðunn Björg Arnaldsdóttir varð þriðja á 4:53,64 sem er ársbesta hjá henni. Hjá körlunum kom Sæmundur Ólafsson fyrstur í mark á 4:04,36 mín sem einnig er besti tími hans á árinu. Hugi Harðarson varð fjórði á 3:24,39 mín.

Í 100 m hlaupi kvenna varð Ásta Margrét Einarsdóttir í öðru sæti og var tími hennar 12,69 sek. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir þjófstartaði og var dæmd úr leik. Guðbjörg varð önnur í 400 m hlaupinu á 56,58 sek og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir sjöunda á 60,46 sek.

Í 400 m hlaupi karla varð Ívar Kristinn Jasonarson annar á 49,34 sek og Gísli Igor Zanen áttundi á 57,11 sek.

Rut Tryggvadóttir varð önnur í sleggjukasti og kastaði 51,44 m. Katharina Ósk varð fimmta í greininni með kasti upp á 26,92 m, sem er bæting hjá henni eins og í kúluvarpinu.

Benjamín Jóhann Johnsen varð annar í tveimur greinum; hástökki, þar sem hann fór yfir 2,01 m sem er bæting hjá honum, og 110 m grind sem hann hljóp á 15,14 sek. Í grindinni varð Reynir Zoëga sjöundi á tímanum 19,33 sek og í hástökkinu bætti Mikael Daníel Guðmarsson sig og stökk 1,80 m og varð áttundi. Mikael keppti einnig í þrístökki þar sem hann varð fjórði og lengsta stökk hans 11,96 m. Birgir Jóhannes Jónsson varð einu sæti á undan Mikael og stökk lengst 13,13 m.

Hildigunnur Þórarinsdóttir varð þriðja í langstökki og stökk lengst 5,47 m. Ásta Margrét Einarsdóttir varð sjötta með stökki upp á 4,97 m, sem er bæting hjá henni.

Í 1000 m boðhlaupi kvenna varð sveit ÍR-A í öðru sæti á 2:16,81 mín og B sveitin á 2:31,33 mín. Hjá körlunum varð A sveitin í þriðja sæti á 2:02,02 mín og ÍR-B áttunda á tímanum 2:19,60 mín.

Í 100 m hlaupi karla varð Dagur Andri Einarsson fjórði á 11,20 sek og Elvar Karl Auðunsson sjöundi á 11,71 sek.

Öll úrslit mótsins má finna hér: http://mot.fri.is/MotFRI/SelectedCompetitionResults.aspx?Code=M-00000539

Þótt ÍR-ingar hafi ekki náð að halda bikarnum að þessu sinni er engin ástæða til annars en gleðjast yfir frábæru gengi frjálsíþróttafólks úr ÍR það sem af er tímabilinu en lið ÍR sigraði bæði á MÍ fyrr í þessum mánuði, sem og á MÍ 15-22 ára sem haldið var í júní, auk þess sem ÍR-ingar hafa átt keppendur á stórmótum erlendis, þar sem meðal annar hefur unnist verðlauna, auk Íslands- og aldursflokkameta. Næst á döfinni er Bikarkeppni 15 ára og yngri, sem haldin verður í Kaplakrika 10. ágúst þar sem ÍR mun senda vaska sveit yngri keppenda. Helgina á eftir verður MÍ í fjölþrautum haldið á Akureyri þar sem ÍR mun eiga keppendur og sömu helgi verður NM U20 haldið í Kristiansand í Noregi.

Ljósmynd frá FRÍ

X