Bætingar hjá ÍR-ingum á MÍ í fjölþrautum

Sigurvegarar í fimmtarþraut 16-17 ára stúlkna. Mynd af vef Frjálsíþróttasambandsins.

ÍR-ingar áttu sex keppendur á meistaramótinu í fjölþrautum sem fór fram í Laugardalshöll um helgina. Fanney Rún Ólafsdóttir og Helga Margrét Haraldsdóttir kepptu í fimmtarþraut 16-17 ára stúlkna, Egill Smári Tryggvason, Mikael Daníel Guðmarsson og Úlfur Árnason í sjöþraut 16-17 ára pilta, og Benjamín Jóhann Johnsen í sjöþraut karla.

Fanney Rún hafnaði í 3. sæti í fimmtarþrautinni með 2822 stig og bætti hún sig í tveimur greinum, langstökki þar sem hún stökk 4,75 m og í 800 m hlaupi á tímanum 2:41,31 mín. Hún hljóp 60 m grind á 10,35 sek, stökk 1,50 m í hástökki og kastaði 9,59 m í kúluvarpi. Helga Margrét náði ekki gildu stökki í langstökki og lauk ekki keppni, en hafði leitt nokkuð örugglega fram að því. Hún hljóp 60 m grind á 8,96 sek (PB), stökk 1,50 m í hástökki og kastaði kúlunni 13,10 m. Alls hlaut hún 2273 stig. Blikinn Katla Rut Robertsdóttir Kluvers varð Íslandsmeistari með 3001 stig og Signý Hjartardóttir Fjölni önnur með 2900 stig.

Í sjöþraut 16-17 ára pilta varð Úlfur í 4. sæti með 4024 stig og Mikael sjötti með 3239 stig sem var bæting hjá þeim báðum. Egill, sem var að keppa í sinni fyrstu sjöþraut, hafnaði í 7. sæti með 2765 stig. Í 60 m hlaupi hljóp Úlfur á 7,83 sek (PB), stökk 5,50 m í langstökki, kastaði kúlunni 11 m, stökk 1,68 m í hástökki, hljóp 60 m grind á 9,06 sek (PB) , fór 3,30 m í stöng og lauk keppni með því að hlaupa 1000 m á 2:56,94 mín (PB). Mikael hljóp 60 m á 8,06 sek, stökk 5,31 m í langstökki, kastaði 8,32 í kúlu (PB), stökk 1,65 í hástökki, hljóp 60 m grindina á 10,55 sek, stökk 2,90 m í stangarstökki og hljóp 1000 m á 3:07,73 mín. Egill hljóp 60 m á 8,40 sek, stökk 4,82 m í langstökki (PB), kastaði kúlunni 8,01 m, stökk 1,56 m í hástökki, fór 60 m grind á 11,05 sek, stökk 2,50 m í stöng (PB) og hljóp 1000 m á 3:10,52 mín. Íslandsmeistari í aldursflokknum varð Ragúel Pino Alexandersson UFA með 4521 stig, Jón Þorri Hermannsson KFA  annar með 4370 stig og Dagur Fannar Einarsson Selfossi hafnaði í þriðja sæti með 4090 stig eftir spennandi keppni milli þeirra Úlfs á seinni deginum.

Í karlakeppninni varð Benjamín sjötti með 4609 stig sem er bæting hjá honum. Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki sigraði og hlaut hann 5294 stig, Ísak Óli Traustason UMSS varð annar með 5214 stig og Guðmundur Karl Úlfarsson Ármanni þriðji með 5002 stig. Árangur Benjamíns í þrautinni var eftirfarandi: hljóp 60 m á 7,52 sek (PB), í langstökki stökk hann 6,16 (PB),  kastaði kúlunni 11,07 m, stökk 1,88 m í hástökki (PB), hljóp 60 m grind á 8,77 (PB), stökk 3,70 m í stangarstökki og fór 1000 m á 2:56,02 mín (PB).

Af ofantöldu má sjá að ÍR-ingarnir voru öll að bæta sig í einhverjum greinum, allt frá einni og upp í fimm, og greinilegt að þau eiga mikið inni. Við óskum þeim, nýbökuðum Íslandsmeisturum og öðrum keppendum til hamingju með árangurinn.

X